Monday, February 28, 2011

Húsin í leiðinni


Það eru fullt af skemmtilegum húsum við Leið 1 (BB-Askja). Eftir fjölda ferða hættir maður að taka eftir þeim og þau falla inn í umhverfið - verða n.k. sviðsmynd. Ég ákvað bæta úr þessu og draga fram í dagsbirtuna þau hús sem að mér finnast eftirtektarverð eða falleg.
Skemma og hús við Kópavogshæli (das2011)
Fyrsta húsið stendur við Kópavogstún, líklega á lóð Kópavogshælis, sunnan megin í Kársnesinu (Ég bið Kópavogsbúa afsökunar ef að ég fer rangt með staðhætti eða örnefni). Ég óttast það að þetta hús sé "niðurrifslista" hjá einhverjum sem vill byggja og græða peninga. Miklu nær væri að gera húsið upp og laga umhverfið. Þá væri komið eitt af þessum húsum sem í dag eru fáséð í borginni og þau fáu sem eftir standa eru að týna tölunni. Hús eins og þetta bíður upp á margvíslega starfsemi og væri hægt að leigja út fyrir sanngjarnan pening, hverjum þeim sem kemur fram með góða hugmynd.

Ég sé fyrir mér kaffihús eða veitingastað fyrir þá sem hjóla eða ganga með gæludýr. Þar væri hægt væri að staldra við: ditta að hjólinu, tilla sér og fá sér kaffi eða snæðing - án þess að verða úthýst vegna þess að þú ert með hundinn þinn eða hamsturinn í taumi. Á túninu væri hægt að hafa gerði til að sleppa dýrunum.
(ja.is)

Friday, February 25, 2011

"Almenningsvagnamenn"

Virðulegur maður á hjóli (das2011)
Af hverju er ég „hjólreiðamaður“ þótt ég hjóli stundum. Ég veit ekki til þess að þeir sem fara leiðar sinnar á bílum séu kallaðir „ökumenn“; eða þeir sem nota strætó séu kallaðir: „almenningsvagnamenn“. Það er svolítið sérstakt að vera auðkenndur við þá leið sem þú velur þér til að komast á milli staða. Kannski lýsir þessi orðræða best stöðu hjólreiða í íslensku borgarskipulagi. Getur verið að þeir sem hjóla séu taldir öðruvísi – jafnvel skrýtnir? Ýtir orðræðan undir aðgreiningu hjólreiðamanna frá öðrum vegfarendum og viðheldur þeirri ímynd að þeir sem hjóla séu jaðarhópur. Ég held að á meðan svo er megi ekki búast við því að hjólreiðar ná fótfestu sem samgönguleið. Ábyrgð skipulagsyfirvalda er mikil í þessum efnum og skipulag borga og bæja verður að gera ráð fyrir þeim sem kjósa hjóla sinna leið, jafnt og annarra, svo að reiðhjól verði gildandi samgöngutæki.

Thursday, February 24, 2011

Niðurlægingin við skólamölina


Skólamölin við Lækjarskóla (das2011)
 Lækjarskóli er ein sögufrægasta- og reisulegasta byggingin í Hafnarfirði. Skólinn og umhverfi hans er helgur staður í augum margra Hafnfirðinga. Húsið er enn til staðar og í ágætu standi en það sama verður ekki sagt um skólamölina.

Skólamölin er nefninlega ekki síður merkileg en húsið sjálft. Þar stigu margar af skærustu íþróttastjörnum bæjarins sín fyrstu skref: Geir Hallsteinsson, Kristján Arason og Þorgils Óttar, svo einhverjir séu nefndir. Í gamla íþróttahúsinu við skólann er "vagga handboltans" í Hafnarfirði og það vita allir sem eitthvað vita um handbolta að sú grein á rætur sínar að rekja í Hafnarfjörð. Auk þessa var þjóðhátiðardagurinn haldin hátíðlegur þar til margra ára. Þannig er skólamölin samofin bæjarumhverfinu og sögu Hafnarfjarðar sem þéttbýlis.

Ég er þeirrar skoðunar að þar sé farið illa með eitt sögufrægasta leik- og útivistarsvæði bæjarbúa í Hafnarfirði. Allt fram undir það síðasta var skólamölin mikið notuð og þar stóðu leiktæki, körfur, bekkir og mörk. Því hefur nú meira eða minna öllu verið rutt úr vegi svo koma megi fyrir bílum þeirra sem starfa í Tónlistarskóla HF. (sem að hluta er starfræktur í íþróttahúsinu) eða sækja aðra starfsemi sem fram fer í húsinu. Þar með hefur sagan verið fótum troðin í einni svipan - klippt á hefðina og eina leiksvæðinu í miðbænum verið eytt.

Sú er allt of oft raunin með staði og menningarminjar í bænum. Skipulagsyfirvöld hafa einstakt lag á að leiða hjá sér söguna og hefðina í þeim tilgangi að svara skammtímahagsmunum.
Er ekki komin tími til að við látum íbúana ganga fyrir bílunum?
Er ekki komin tími til að við séum stolt af sögu okkar og arfleifð í Hafnarfirð?

Ég legg til að skólamölin við Lækjarskóla verði aftur færð til vegs og virðingar og endurgerð með þarfir íbúa í bænum að markmiði en ekki bíleigenda.

GripaflutningarÓskar (8 ára gamall english springer spaniel) er að verða fótafúinn og engan vegin sami reiðhundurinn og áður. Honum þykir gaman að fara með mér í hjólatúra en skrokkurinn er farin að segja til sín og hann hefur ekki í við okkur Flosa (tæplega 2 ára standard schnauzer). Það er hundleiðinlegt að fara með þá báða þar sem þeir eru á sitt hvoru tempóinu og jafn leiðinlegt að fara með Skara einan þar sem hann er dragbítur.

Hvað er til ráða?

Lausnina er finna í myndbandinu hér að ofan. Ég þarf að kaupa cargo hjól - setja Skara í skúffuna og binda Flosa við sætisstammann.

23. feb. 2011 - Hjólasafn við HR

Hjólarekki við HR
Hjólum fer fjölgandi við HR og við skólann er ágætis aðstaða til að skilja við og geyma gripina.

Fyrir innan þennan glugga er unnið að þróun rafmagnsbíla sem vonandi fer fjölgandi á komandi árum.

Wednesday, February 23, 2011

Merkilegt

Í Fossvoginum (das2011)
Hvað gerist ef ég gæti ekki að öllum merkingunum?

Tuesday, February 22, 2011

22. feb. 2011

Fræsingur
Víða eru götur hressilega fræstar við kannta. Þessi fræsingur er erfiður viðureignar fyrir þá sem fara um á hjóli og halda til í könntum. Þessi mynd er tekin í Fossvoginum og hraði mikill og þung umferð. Það er óþægileg tilhugsun að missa stjórn á hjólinu í þessum rennum og "ekki um að binda" ef maður skellur í götuna.

22. feb. 2011

Veðrið þann 22.2.2011
Það er mikill munur að fara leiða sinna á hjóli þessa dagana miðað við það sem hefur verið frá því í síðari hluta desember mánaðar. Nú eru götur nánast alveg auðar og ekkert eftir nema stöku skaflar og uppruðningar. Ferðahraðinn eykst og um leið hraði ökumanna.

Tengingin við Garðarbæ III: Herjólfsbraut - Álftanesvegur - Hraunholtsbraut

Þriðja af fjórum tengingum við Garðarbæ frá Hafnarfirði er um Álftanesveg: frá Herjólfsbraut að Hraunholtsbraut í Sjáland.

Tenging III við Gbr: Herjólfsbraut við Hrafnistu - Álftanesvegur - Hraunholtsbraut
 Á Hraunholtsbraut, við Hrafnistu, hefur verið komið fyrir hjólavísum sem ég held að sé einsdæmi í Hafnarfirði (Reyndar geri ég mér ekki fullkomlega grein fyrir því hvort þetta sé í Hafnarfirði þar sem ég þekki ekki Hreppmörkin nákvæmlega. Ég veit þó að Hrafnista er í Garðarbæ og íbúðir fyrir eldri borgara í raðhúsum einnig). Þegar komið er að Álftanesvegi þarf að fara yfir veginn og inn á ágætis hjólastíg sem á sér langa sögu og hefur verið mikið notaður af hjólandi-, gangandi- og skokkandi vegfarendum. Það er varhugavert að fara þarna yfir og kanski komin tími á ljós á þessum stað þar umferð hefur aukist mikið og hraði er einnig mikill. Hjólað er meðfram Álftanesvegi í austur átt þar til komið er að Hraunholtsbraut þar sem stígurinn beygir í norður í átt að Sjálandi. Þar tekur við góður hjólastígur alla leið að Arnarnesinu.

Göngu- og hjólastígur í Sjálandi
Þessi tenging er að mínu mati sú besta við nágrannasveitarfélagið Garðarbæ. Að vísu er hún útúr leið fyrir lunga bæjarbúa beggja bæjanna en sem útvistarleið er hún til fyrirmyndar. Þeim sem búa í Norðurbænum í Hfj. og á Hraunsholtinu í Gbr. nýtist þessi leið hins vegar vel til samgangna. Það er ekki hægt að segja að það séu neinir flöskuhálsar eða farartálmar á leiðinni en því fylgir þó nokkur áhætta að þvera Álftanesveginn.

Monday, February 21, 2011

Það er gott að hjóla í miðbænum


Austurgatan (das2011)
 Þrátt fyrir að höfuðborgarsvæðið hafi fyrst og fremst verið skipulagt út frá forsendum einkabílsins hafa áherslur verið að breytast á síðust misserum. Undanfarið ber meira á því að verið sé að skoða samspil reiðhjóla og hvaða leiðir séu bestar í þeim efnum: hjólastígar, hjólareinar eða hjólavísar?

Ég held að það sé engin ein lausn sem virki fyrir alla borgina. Austurgatan í Hafnarfirði er dæmi um götu sem engu þarf að breyta - þar er gott að hjóla. Það sama gildir um aðrar götur í miðbæ Hafnarfjarðar og Reykjavíkur reyndar einnig. Gamlir miðbæir henta vel sem samrými hjóla og bíla þar sem umferð er hæg og nægt pláss. Annað gildir hins vegar um umferðarþungar götur þar sem betur færi að leggja hjólareinar eða hjólavísa.

Mikilvægast er að hægt sé að tvinna saman ólíkum farartækum: Reiðhjólum, strætisvögnum og einkabílum, á þann hátt að gert sé ráð fyrir öllum og allir séu boðnir velkomnir í umferðina - ekki síst gangandi vegfarendur.

Friday, February 18, 2011

Andrúmsloft

Hjólavísar á Hverfisgötunni
Ég tók þessa mynd í haust og finnst hún lýsa vel því andrúmslofti sem ríkir á götunni. Þar á sér stað "þögult" samtal á milli vegfarenda um hvernig skuli skipta göturýminu. Umgengnisreglurnar eru settar með augnsambandi - ósjaldan í baksýnisspeglinum. Í flestum tilfellum ganga þessi samskipti vel fyrir sig og allir skilja sáttir. Stundum gerist hins vegar hið gagnstæða og einum finnst á sér brotið eða að sér vegið. Í götunni liggur svo viðleitni borgaryfirvalda til að greiða fyrir umferðinni.

Tengingin við Garðarbæ II: Miðhraun-Flatir

Ég hef áður fjallað um hversu illa nágrannasveitarfélögin Hafnarjörður og Garðarbær eru tengd fyrir þá sem kjósa að fara gangandi eða hjólandi á milli bæja (Tengingar við Garðarbæ I). Hér verður fjallað um leið tvö af fjórum: Miðhraun - Flatir um Hafnarfjarðarhraun. Það skal tekið fram strax í upphafi að Miðhraun er í raun í landi Garðarbæjar þannig að hér er ekki um eiginlega tengingu á milli sveitarfélaganna heldur innanbæjarstíg í Garðarbæ. Hins vegar er Miðhraun landfræðilega mun tengdara Hafnarfiði heldur en Garðarbæ.

Miðhraun - Flatir um Hafnarfjarðarhraun (ja.is)
Það er ekki langt síðan ég fann þessa leið og mig grunar að það séu ekki margir sem vita af henni. Ástæðan er sú að hún er kirfilega falin á milli verskmiðjuhúsa í iðnaðarhverfi þeirra Garðbæinga og engar merkingar sem vísa á hana. Þannig er hún ekki "eðlilegt" framhald af gatna- eða stígakerfi bæjarins.
Á myndinni hér að neðan má sjá höfundinn vísa á leiðina við Miðhraun

Tenging við Miðhraun (suður).
Leiðin er í sjálfu sér skemmtileg og falleg þar sem malbikaður stígurinn hlykkjast um hraunið. Að vísu þarf að gæta þess að beygjur eru krappar og ekki ráðlegt að fara hratt yfir í hálku. Leiðin er upplýst sem gerir hana hana öruggari fyrir vikið. Ég hef hins vegar ekki farið þarna um í myrkri.

Hafnarfjarðarhraun. Flatir í bakgrunni
Á leiðarenda blasa Flatirnar í Gbr. við og brú yfir Hraunkotslæk. Þá eru tveir kostir í boði: að halda inn á Flatirnar eða fylgja læknum niður að Stjörnuvellinum.

Við göngubrúnna yfir Hraunkotslæk (norður).
Sem fyrr segir er hér ekki um raunverulega tengingu milli Gbr. og Hfj. að ræða. Þetta er fyrst og fremst það sem ég kalla "unaðsstígur" þar sem áherslan hefur verið lögð á gangandi vegfarendur umfram aðra. Þannig er þetta ekki samgönguleið fyrir hjólandi þótt hún nýtist ágætlega sem slík.

Mesta furðu vekur að engar merkingar er til staðar sem benda leiðina við Miðhraun. Þannig fer hún framhjá flestum sem fara um og týnist í umvherfinu.

Thursday, February 17, 2011

16. feb. 2011

Myndin hér að neðan er tekin í Öskjuhlíðinni (að sunnan verðu) á þeirri leið sem ég kalla Leið 1. Þetta er að mínu mati fallaegasti leggur leiðarinnar sem tengir Bjarnabæ og Öskju. Á þessum stutta kafla (c. 300 m.) er ég skyndilega einangraður frá borgarumhverfinu á milli trjánna. Umferðarniðurinn hverfur, fuglasöngur tekur við og stöku kanínur skjótast yfir stíginn. Sannarlega náttúruvin í borginni sem annars er fátæk af slíkum stöðum.

Öskjuhlíð
En þetta er ekki samgöngubót fyrir þá sem hjóla. Þarna verður óþarfa hækkun og útúrdúr þegar stígurinn sveigir upp í hlíðina. Sem samgönguleið hefði verið eðlilegra að hjóla beint áfram, undir Öskjuhlíðinni og inn á Nauthólsveg. Óþarfa hækkanir tefja leið og "unaðs"-kafli sem þessi á ekkert skylt með samgöngum þó hann sé sannarlega til þess fallin að auka lífsgæði í borginni fyrir þá sem ganga.
Til hægri eða til vinstri?
Á loftmyndinni er leggurinn innan gula hringsins. Rauða línan sýnir þá leið sem stígurinn liggur en græna línan hvernig hefði verið eðlilegast að halda áfram.
Suðurvangi Öskjuhlíðar (ja.is)
? Kanski á skógurinn ekki að vera "lokaður" heldur "opinn" - sérstaklega í borg.

Wednesday, February 16, 2011

Tengingin við Garðarbæ I: Fjarðarkaup - Hraunhólar

Fjarðarkaupaplanið

Myndin hér að ofan er tekin á bílastæðinu hjá Fjarðarkaupum og sýnir eina af fáum göngu- og hjólaleiðum frá Hafnarfirði til Garðarbæjar. Á hverjum degi fara þarna um tugir ef ekki hundruðir manna og kvenna gangandi eða á hjóli. Þrátt fyrir það er í rauninni ekki gert ráð fyrir því: engar merkingar, engar gangstéttar, engir hjólastígar og helst ekki rutt þegar snjóar - miklu heldur að það sé rutt fyrir og á leiðina. Þá má líka spyrja sig að því hvort það sé eðlilegt fara inn á bílastæði hjá stóru verslunarfyrirtæki þar sem jafnan er mikil umferð.


Engidalur (ja.is)

Er ekki komin tími til að fóstbræðurnir Hafnarfjörður og Garðarbær taki sig saman um að skipuleggja hvar og hvernig hægt er, með góðu móti, að komast gangandi eða hjólandi á milli bæja?

UNAM


UNAM - The Bicycle Friendly University in Mexico City from Copenhagenize on Vimeo.

Flott mynd um háskólacampus í Mexíkóborg þar sem mikil áhersla er lögð á hjólreiðasamgöngur.

Heimild: Copenhagenize

Kaninn


Moving Beyond the Automobile: Transit Oriented Development from Streetfilms on Vimeo.

Heimild: Copenhagenize

Tuesday, February 15, 2011

15. feb. 2011

Það er hálka á götunum þessa dagana. Það rokkar +/- 0° C og ýmist er maður með tjöruna upp á bak eða á bakinu. Reyndar hef ég ekki dottið en ég finn að það væri gott að hafa nagla að aftan líka. Skoða það fyrir næsta vetur.

Hjólaði í skólann í morgun í rólegheitunum en kom við í GÁP og lét herða upp hjá mér stýrið. Ég reyni jafnan að leysa svona hluti sjálfur en gat ekki fyrir nokkurn mun fundið út úr þessu. Þeir voru 5 mín. að þessu. Ég hafði mest gaman af því að ég bað um að fá að fylgjast með þeim en þeir vísuðu mér út af verkstæðinu og sögðust ekki nenna að hafa mig hangandi yfir sér. Alvöru menn sem rukkuðu ekkert fyrir greiðann. Að viðgerðinn lokinni útskýrði öðlingurinn í versluninni fyrir mér hvernig ég ætti að bera mig að.

Það gekk vel á leiðinni heim enda veðrir gott og göturnar að mestu auðar ...þangað til að komið er að Flataskóla og Stjörnuvellinum. Þaðan og heim að dyrum í Bb. er leiðinda færð enda illa rutt í Gbr. og Hf. Ég hafði sólina í augun og sólgleraugun komu að góðum notum. Ég sett þau upp í Öskju um leið og ég gekk út. Í hurðinni mætti ég konu sem ávarpaði mig á ensku og bað mig um að halda fyrir sig hurðinni opinni.

Lít ég út fyrir að vera útlendingur?
.... eða býst engin við Íslendingi á hjóli með sólgleraugu í febrúar?

Kermit

dashjol í heimsfréttunum

Kierkegaard

"Above all, do not lose your desire to bike"

Monday, February 14, 2011

Stefnulausir félagar

Ringulreið

Alpha dog

Flosi við "Klettströnd"
Ég á tvo hunda: Óskar og Flosa, og þeim finnst báðum gaman að fara með mér í hjólatúr. Óskar er reyndar að verða of gamall og of þungur fyrir þessa túra. Þeir fá góða hreyfingu og sjá margt skemmtilegt og sjálfur situr maður í makindum á hjólinu.
Það eru til sérstakar tengingar, sem eru festar við sætis-stammann, en ég ef ekki fengið mér slíka græju og læt nægja að binda tauminn við stammann. Gæta þarf að því að hafa tauminn ekki of langan en heldur ekki of stuttann. U.þ.b.1 m. taumar hefur mér þótt henta best, þá er hundurinn í kjörfjarlægð frá hjólinu og ég hef góða stjórn á honum og hjólinu. Þá held ég að það sé best að venja hundinn á að vera alltaf sömu megin líkt og þegar þeir ganga við taum. Þannig eru við félagarnir a.m.k. öruggastir.


Flosi er meðal stór hundur um 15 kg. Þrátt fyrir það getur hann rykkt hressilega í. Ég get ímyndað mér að stærri og þyngri hundur geti hreinlega kippt undan manni hjólinu, sérstaklega i hálku.
Við tölum mikið saman þegar við hjólum. Það er mikilvægt svo að við séum í "sambandi" og séum báðir að stefna í sömu átt. Þannig segi ég "hægri" eða "vinstri" þegar við beygjum og "vóóóó" þegar við hægjum á okkur. Það þarf aldrei að hvetja Flosa til að gefa í og hann elskar þegar við fáum tækifæri til að auka hraðann.
Eitt þarf ég alltaf að hafa í huga og það er að Flosi (svo ekki sé minnst á Óskar) notar tækifærið til að skíta þegar við förum út saman. Ólíkt hestum á hann ekki auðvellt með skíta á ferð. Þá kippir hann í og reynir að stoppa en skítur um leið. Þegar þannig háttar er eins gott að hafa poka í vasanum.


Þó að Flosi og Óskar (þegar hann var upp á sitt besta) séu óþreytandi þá eru takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að leggja á þófana þeirra. Óskar er stærri og mun þyngri, um 36 kg., og þófarnir á honum hafa stundum verið sárir á eftir. Svo er alltaf þessi hætta að þeir stígi á glerbrot eða (óþolandi) svarf sem fellur til þegar bárujárn er skorið. Þetta svarf þekkja þeir sem hjóla reglulega og þurfa að gera við sprungin dekk.
Ég hef líka heyrt af því að menn setji hundana í kerrur eða séu með þá á sérstökum Cargo-hjólum. Það hentar örugglega þegar dýrin eru lítil eða orðin gömul.  "Tösku-hundum" er svo alltaf hægt að skella í körfuna eða í stýrirtösku. Aðal atriðið er að kenna hundinum listina að hlaupa með hjóli og að láta hann skilja að það ert þú sem stjórnar ferðinni en ekki hann. Þú ert Alpha-dog.

Friday, February 11, 2011

11.2.2011 Flosi

Flosi
Flosi er 20 mánaða Standard Schnauser og yngsti ábúandinn í Bjarnabæ. Við förum stundum í hjólatúr og þá má ég hafa mig allan við að halda í við hann. Einu sinni sem oftar fórum við félagarnar á klettaströndina við Herjólfsgötu og skoðuðum krossfiska og skeljar. Stundum étur Flosi e-ð í fjörunni og fær í magann. Það er ekki geðslegt og ég hóta að fara aldrei með hann aftur þangað. En þrátt fyrir allt þá erum við jafnan mættir daginn eftir enda hvorugur okkar sérstaklega staðfastur.

Elvis ...hjálmlaus!

Konungur rokksins
Elvis Presley var súperstjarna og það sést vel á myndinni afhverju. Ég velti fyrir mér hvort kóngurinn væri eins svalur ef hann væri með hjálm á höfðinu?

Wednesday, February 9, 2011

Starfshópur um bættar hjólreiðasamgöngur í Hafnarfirði

Seint á síðasta ári samþykkti Bæjarstjórn Hafnarfjarðar að skipa starfshóp um bættar hjólreiðasamgöngur. Hópnum er ætlað að viða að sér upplýsingum, í samvinnu við staðardagskrárfulltrúa, um hvað megi gera til að bæta aðstöðu hjólreiðamanna bænum. Bæjarbúar, sem og aðrir áhugasamir, eru hvatt til að koma á framfæri ábendingum og hugmyndum um úrbætur.

Á vef Hafnarfjarðarbæjar: http://www.hafnarfjordur.is/ hefur verið komið fyrir tengli sem gerir fólki kleift að leggja inn athugasemdir.

Ég skora á alla sem sýna þessu málefni áhuga að fylgjast með og koma með ábendingar. Síðar í mánuðinum verður boðað til opins fundar um málið. Þá er um að gera að fjölmenna og halda uppi góðum umræðum.

Mynd dagsins 9.2.2011

Ljón í veginum

Tuesday, February 8, 2011

Þeir vilja ryðja í Kóp. og RVK.

Ég hjólaði að venju í morgun þrátt fyrir að það væri nokkuð snjóþungt. Á leið minni frá Bjarnabæ í HÍ er áberandi hversu vel eða illa sveitarfélögin ryðja götur og göngustíga.

Í Hafnarfirði virðist metnaðurinn vera afar lítill fyrir því að hafa götur og göngustíga vel rudda hvað þá sandaða. Ég fór í langan göngutúr um bæinn með barnavagn í gærdag og átti engan annan kost heldur en að ganga á götunum. Það átti jafnt við um íbúagötur og þungar umferðagötur eins og Rekjavíkurveginn (þar sem ég skeytti engu um bílaröðina sem myndaðist fyrir aftan mig). Göngustígar höfðu lítið sem ekkert hafði verið ruddir, heldur bætt á með með því að moka af götum upp á göngustígana og gangstéttar. Það sem mesta athygli mína vakti var að ég varð ekki var við eina vél að störfum á þeim tíma sem ég var á ferli. Kanski bara tilviljun enda var ég ekki í alfaraleið heldur á Suðurgötu, Lækjargötu, Strandgötu, Reykjavíkurvegi, Flatahrauni, Sléttahrauni, Arnarhrauni, Álfaskeið, Mánastíg og Tjarnabraut.
Ekkert hafði breyst þegar ég lagði af stað í morgun í bænum og engin annar kostur en að ganga og hjóla á götum.

Þegar ég kom í Garðarbæ var ástandið einnig slæmt. a.m.k. frá Fjarðarkaupum að Silfurtúni sem reyndar var til fyrirmyndar miðað við aðstæður. Arnarnesið var hins vegar ekkert spes.
Þegar komið er í Kópavog breytist allt til batnaðar og rúmlega það. Mikið hefur verið lagt í að ryðja og sanda leiðir fyrir gangandi og hjólandi þar á bæ. Það sama gildir um Reykjavík, a.m.k. á minni leið. Frá Kópavogslæknum og að HÍ er aðstæður eins og best verður á kosið og sveitarfélögunum til sóma.
Líklega bíða menn eftir því að það hláni í Hafnf. og Gbr. enda skilst mér að það eigi að hlýna í dag og næstu daga.

Monday, February 7, 2011

Alvöru menn í PortlandÞeir eru ekki í þessu til að eignast vini þarna í portland.
Heimild: Portlandia

Broken bicycle
Tom Waits er af mörgum talin snillingur. Mér var bent á þetta lag í liðinni viku.

Thursday, February 3, 2011

Samhjól

Á síðu þeirra félaga í Bjarti  sá ég auglýsingu um samhjól á vegum Hjólamanna sem fram fer á sunnudaginn 6. feb. næstkomandi kl. 9:30.

" Farið verður frá Sprengisandi á mótum Bústaðaðvegar og Reykjanesbrautar og hjólaður hringur meðfram norðurströnd Reykjavíkur sem sýndur er á myndinni. Verður endað í veitingum hjá Kríu Hjól, Hólmaslóð 4 og er gert ráð fyrir að vera þar uppúr kl. 11.30. Hjólað verður í einum hóp upp í Víðidal og svo gert smá stopp við brúna yfir Elliðaárnar og hópnum skipt í tvennt eftir hraða. Þeir sem vilja fara hægar stytta hringinn og er sú leið merkt með bláu á myndinni. Viljum við hvetja menn til að njóta þess að hjóla í stórum hóp en láta þetta ekki breytast í keppni eins og stundum gerist."


Ég hef einu sinni farið í svona ferð og fannst það mjög skemmtilegt auk þess sem ég tók heilmikið á því. Þetta er því góð leið til að hjóla í góðum hópi brenna aðeins í leiðinni. ´


Ég skora á Davíð (nafna minn og vin) Ólafsson að gera e-ð í sínum málum og láta sjá sig.

3. feb. 2011

Snjókoma
Suð-vestan 4. m/s
-1 C°

Lagði af stað um kl. 9:15 og var lengi á leiðinn og mætti of seint í verkefnatíma hjá RT í ERII. Ekki gott það! Hins vegar var gaman að hjóla í snjónum og víða búið að ryðja stíga. Sérstaklega í Gbr. þar sem Silfurtúnið var til fyrirmyndar. Ég hafð mjög gaman að því hvað bæjarstarfsmaðurinn á snjóruðningstækinu hafði náð beinni línu. Sem gamall garðyrkjuverktaki þá þekki ég vel hversu mikla þjálfun þarf til að ná leikni á þessi tæki. Verst að ég var ekki með myndavélina á mér. Vonandi verður sami gæi á vakt næst þegar snjóar.
Að þessu sinn fór ég Skerjafjörðin í Fossvoginn á leiðinni heim. Það var ágætt að hjóla þar enda hafði stígurinn verið ruddur. Svo hafði Sjórin séð um að salta stóran hluta leiðarinnar þar flætt hafði yfir varnargarðinn. Aftur nagaði ég mig í handabakið fyrir að hafa ekki tekið myndavélina með.
Þegar ég kom í Fossvoginn, við Nesti eða N1, fauk aftur í mig. Sauðurinn sem hafði rutt götur í botni Kóp. hafði gert ser lítið fyrir og rutt snjónum inn á stíginn. Enginn fagmennska.
Um kvöldið hjólaði ég svo í Krikann á fund og á æfingu.

Ég fór hægt yfir í dag en hafði á köflum heilmikið fyrir því að komast áfram. Þrátt fyrir að færðin sé ekki upp sitt besta þá er gaman að hjóla í snjónum. Ég væri samt til í að vera á betri dekkjum, sérstaklega á leið upp brekkur.

Trip dist: 31.97 km.
Trip time: 2:04:00 klst.
Avg. speed: 15.46 kmh
Max spee: 31.70 kmh


Aðferð til að meta gæði hjólaleiða - Myndband

Meðfylgjandi er myndband sem segir frá rannsókn sem framkvæmd var í Austurríki. Tilgangurinn var að þróa aðferð (BiWET) til að meta gæði hjólaleiða með t.t.:

I. Umferðaröryggis
II. Umhverfisins
III. Landnotkunar
IV. Innviða.

Mér þykir liður II og III sérstaklega áhugaverður:
Umhverfi getur skipt hjólreiðamanna miklu máli við val á hjólaleiðum. Það er einfaldlega munur á því að hjóla þar sem umhverfið er aðlaðandi og þar sem það er óaðlaðandi.
Landnotkun skiptir einnig máli. Fjölbreytt og áhugaverð landnotkun hefur áhrif á leiðarval hjólreiðamanna.

Um lið I og IV hefur mikið verið fjallað. Kanski of mikið. Meiri áherslu ætti að leggja á gæði hjólaleiði með t.t. annarra þátta.

Hér að neðan er tengill sem vísar á myndbandið:
The Bikeability and Walkability Evaluation Table: Reliability and Application SciVee

Hjóladagbók 2. feb. 2011

Aftur gleymdi ég að taka stöðuna á veðrinu.

Ferðin til RVK var hefðbundin og ekkert óvenujulegt kom upp.
Á leiðinni til baka var hins vegar komin hríðarbylur og þegar þannig háttar er eiginlega nauðsynlegt að hafa einhvers konar hlífðargleraugu. Ég stoppaði í sjoppu í Hf. og splæsti ég á mig ódýrum sólgleraugum sem nýtast ágætlega í þetta.
Það hafði fennt í leiðina, en ekki svo að það hefði teljandi áhrif á aðstæður. Að vísu kom það fyrir í bröttum brekkum að ég spólaði þar sem snjórinn hafði þjappast og frosið. Ég ímynda mér að við þessar aðstæður sé gott að hafa nagla bæði að framan og aftan en ekki aðeins að framan líkt og ég geri.

Trip dist: 25.97 km
Trip time: 1:36:08 klst.
Avg. speed: 16.21 kmh
Max speed: 39.24 kmh

Wednesday, February 2, 2011

Hjóladagbók 1. feb. 2012

Gleymdi að taka veðrði í dag en það var ágætt. Lygnt, -3°C og skýjað.

Hefðbundin leið í morgun. Lagði af stað um 8:00 og var komin um 8:40. Ekkert markvert gerðist á leiðinni og mér gekk vel án þess að vera eitthvað að leggja á mig.
Ég ákvað að koma við í Ármúlanum og í Skeifunni á leiðinni heim. Leiðin varð því nokkuð lengri en venjulega. Frá Skeifunni fór ég Grensásveginn, yfir Bústaðaveginn og niður í Fossvoginn, yfir göngubrúna og út fyrir Kársnesið. Þaðan yfir Arnarnesið, gegnum Sjálandið og heim.
Um kvöldið fór ég svo með hundana í taumi vestur í bæ. Ég sleppti þeim lausum á útivistarsvæði við Herjólsfsgötu og hélt svo heim.

Hugleiðingar
Af hverju get ég ekki farið í suður þegar ég kem yfir hjólabrúnna yfir Kringlumýrarbraut að austan????Gulu línurnar á myndinni hér að ofan sína leið mína úr Fossvogsdalnum í austri, yfir Kringlumýrarbraut. Ef ég ætla mér í suður, í átt að Kópavogi, þarf ég að staulast brattan troðning (meðfram þrepum fyrir gangandi vegfarendur) sem hefur myndast af dekkjum þúsunda hjólreiðamanna.

Tek mynd af þessu á morgun og útlisti frekar.

Trip dist: 42.02 km
Trip time: 2:27:44 klst.
Avg. speed: 17.08 kmh
Max speed: 42.89 kmh

Utanríkisráðherra dana gerir grein fyrir máli sínu"...cycling is not just for the poor. It actually improving the mobility in the society in general"

Heimild: Copenhagenize

Sjónarhóll - Fyrir nesið

Mig langar að gera eitt að umtalsefni hér. Stígakerfi hjólreiðamanna á höfuðborgarsvæðinu er sundurslitið og samhengislaust á köflum. Það kemur engum á óvart sem notar kerfið. Hins vegar er það svo, á t.t. stöðum, að þú getur hreinlega villst ef þú þekkir ekki borgarhlutann þeim mun betur. Það á t.d. við á Kársnesinu. Þar er góður, jafnsléttur, malbikaður stígur sem er hluti af hinum s.k. Bláa stíg sem tengja á saman strandlínuna frá Straumsvík að Mógilsá við Esjurætur. Sannarlega hefur verið staðiði vel að verki víða en annarsstaðar virðist vera langt í úrbætur, eins og t.d. á Álftanesi og í Arnarnesi. En á Kársnesinu er þetta næst um því gott vegna þess að sá hluti stígsins sem liggur fyrir nesið og tengir saman leiðir norðan- og sunnanmegin er einfaldlega ekki til staðar og engar merkingar eða skilti sem vísa þér leið.Myndin hér ofan sýnir hvað ég á við: Bláar línur sína stíginn norðan- og sunnanmegin en rauða línan þann legg þar sem engir innviðir eru til staðar og það sem meira er engar merkingar.
Best væri auvitað að haldið yrði áfram með stíginn, aðskildan frá umferð, fyrir nesið. En einnig væri ákjósanlegt að byrja bara á því að merkja línu og setja upp skilti sem beina hjólreiðamönnum og göngumönnum leiðina.
Hér með er skorað á bæjaryfirvöld í Kópavogi að bregðast skjótt við og bæta úr.

Tuesday, February 1, 2011