Wednesday, February 27, 2013

Samgöngubætur

Kópavogurinn er mikill farartálmi fyrir þá sem hjóla frá Garðabær eða Hafnarfirði til Reykjavíkur, og öfugt. Í fyrsta lagi fylgir Kópavogshálsinum mikil hæðaraukning sem tekur rækilega í ef farið er styðstu leið yfir hálsin. Fyrir Kársnesið liggur góð leið á góðum stígum meið lítilli sem engri hækkun, en sú leið er tafsöm og krókur á leiðinni. Svo eru auðvitað fleiri leiðir í gegn um bæinn en allar eru þær haldnar sömu annmörkum og hér hefur verið lýst.
Sjálfur kýs ég helst að hjól beint yfir hálsinn þar sem að sú leið er styðst, þó hún reyni aðeins á lærin. Verst hefur mér fundist að hjóla frá Reykjavík til Hafnarfjarðar þar sem leiðin niður sunnanmegin er brött og víða blindhorn - sérstaklega þegar kemur að Dvarlarheimilinu Sunnuhlíð. Þangað kemur hjólreiðafólk á góðri siglingu og við taka blindhorn, þveranir og bílastæði, sem tefja leið og skapa töluverða hættu ef ekki er höfð aðgát.
Nú ber hins vegar svo við að þar hafa verið gerðar töluverðar endurbætur sem greinilega eru fyrst og fremst ætlaðar til að greiða leið hjólreiðafólks og auka á öryggi þess.
Fyrir þá sem þekkja til þá þarfh ég ekki að skýra það frekar hvað hefur veirð aðhafst á staðnum. Fyrir hina, sem ekki þekkja til, þá læt ég myndirnar tala sínu máli.
Séð upp með fram Sunnuhlíð þar sem framkvæmdir stóðu yfir (HG2013).
 
 
Á þessum slóðum, fyrir ofan Sunnuhlíð, var lengi vel eitt hættulegasta blindhornið á mínum daglegu leiðum (HG2013).
 

Tuesday, February 26, 2013

Aufúsugestur

Hvert sem horft er má sjá lífið og náttúruna. Innan borgarmarkanna sem utan eru gras og blóm, fjöll og tindar, villt og tamin dýr. Sólin og regnið, vindurinn og stillan, frostið og hlýindin eru alltumlykjandi . Í hnakknum færðu þessi tilbrigði í fangið og nýtur þess að vera hluti af heild sem gæðir lífi og mótar land.
Tjaldurinn er sá fugl sem ég held mest í heiðri. Hann er fallegur og spakur. Hann hefur skemmtilegt háttalag og það er eitthvað mannlegt við hann - ekki ósvipað hrafninum. Þá er hann vorboði og sem slíkur er hann sérstakur aufúsugestur.
HG2011
HG2011
HG2011










Wednesday, February 13, 2013

Flosi & Skúli og hlaupreiðar

Taumlausir (HG2013)
Félagarnir Flosi og Skúli eru af kyni dverg- og standard schnauzer. Þeir fara stundum í hjólatúra, sérstaklega Flosi sem er eldri og mun stærri. Skúli er enn að ná tækninni og er í stórhættu á að hlaupa undir hjólið ef hann nýtur ekki leiðsagnar Flosa. Þá er Skúli helst til skrefstuttur sem veldur því að hann vill dragast á eftir Flosa sem óheppilegt auk þess sem ég verð að draga úr ferðinni. Oftast eru þeir í tvíburataumi en utan alfaraleiðar fá þeir lausan tauminn. Þá færist Skúli í aukana og á auðveldara með að halda í við okkur Flosa sem segir mér að þeim líður betur taumlausum.
Það er frábært að hjóla með hundi(-um) sem kann listina. Þeir geta hlaupið ótrúlega langt og lengi. Þó þarf að gæta þess að hvílast reglulega og væta kverkarnar þar sem það er hægt. Einnig þarf að passa upp á þeir verði ekki sárfættir. Með öðrum orðum þá þarf að hafa tilfinningu fyrir hundinum og stýra álaginu á honum svo að hann hljóti ekki miska af eða verði afhuga hlaupreiðum.

Í taumi (HG2013)

 

Indverskameríska reiðhjólasambandið

Í skúrnum við hliðina hjá mér hafa strákar komið sér upp aðstöðu til að föndra við vélar og tæki. Nýjasta afurðin er gamalt indverskt reiðhjól sem fengið hefur amerískan bensínmótor. Afraksturinn er hávær, en hrikalega skemmtilegur. Ekki er aðeins útlitið flott heldur æðislegur fílingur að sitja í hnakknum.
Indverjinn með ameríska mótorinn. 50.000 komin til landsins, all included og auðveldur í uppsetningu (HG2013)

Smári handverksmaður, stoltur við gripinn (HG2013)
HG á indverskameríska bræðingnum (Smári2013)
 

Monday, May 7, 2012

Landfræði á hjólum


Staldrað við á Ingólfstorgi (HG2012)
HÍ og Ferðafélag Íslands standa fyrir ferðum sem kallast "Með fróðleik í fararnestinu". Um liðna helgi var hjólaferð í leiðsögn landfræðingsins Karls Benediktssonar undir fyrirsögninni "Borgarlandið með augum landfræðinga". Um 55 tóku þátt í 2 tíma ferð, um 8,5 frá Öskju, um Hljómskólagarðinn, að Ingólfstorgi, út á Faxagarð, að Hlemmi, Landspítalanum og loks í Nauthólsvík. Ferðin tókst vel og víðfróður Karl var með góða framsögu á völdum stöðum. Gott veður jók enn frekar á ánæguna, þótt heldur hafi veirð kallt í fyrstu. Frábært framtak sem vonandi verður framhald á.

Thursday, April 26, 2012

"klassaðu" gamla settið

Það fylgir vorinu að nýjar vörur fylla hjólreiðaverslanir, og ekki að ósekju. Mörgum langar að hjóla á sumrin og jafnvel að nota hjólið í samgöngum. Ég er oft spurður af fólki sem hyggst byrja að hjóla í skólann eða vinnuna: hvernig hjól á ég að fá mér og hvernig útbúnað á ég að kaupa? Alltaf svara ég á sama hátt: áttu ekki hjól í skúrnum eða kjallaranum og áttu ekki góðan flíspeysu og regnjakka? Oftar en ekki svarið: Já, en hjólið er orðið svo gamalt og bilað ...og þarf maður ekki sérstakan útbúnað, fatnað osvfrv.? Þá er næsta spurning: er ekki hægt að gera við hjólið og til hvers þarftu sérstakan útbúnað?

Á flestum heimilum eru til gömul hjól sem ýmist eru í lagi eða þarfnast smávægilegra lagfæringa svo  að hægt sé að nota þau. Það að engin ástæða til að kaupa nýtt hjól til að byrja að hjóla. Hjól eru þeirrar náttúru gædd að það er tiltölulega auðvelt og ódýrt að gera við þau. Og varðandi útbúnaðinn, þá er það mín reynsla að Íslendingar kunna að klæða sig fyrir veðri og vindum og að á flestum heimilum er til góðir stakkar eða úlpur.

Því segi ég við þá sem vilja prófa að nota reiðhjól í samgöngum að það sé mjög einfalt. Gerðu við eða láttu gera við gamla hjólið og kauptu þér góða húfu og fingravettlinga. Það þarf ekki að kosta mikið og er alls ekki mikil fyrirhöfn að byrja að hjóla. Nú, fyrir þá sem ekki eiga gamalt hjól eða dauðlangar að kaupa sér nýtt þá skil ég það vel. Ég á sjálfur mínar sælustu stundir á netinu að skoða ný hjól eða á hjólreiðaverslunum þar sem lyktin af málmum og gúmmí fyllir vitin.

Monday, April 23, 2012

999 kílómetrar


999 km. þann 22. apríl 2012 við Hringbrauti (HG2012)
.999 kílómetrar frá því í nóvember í fyrra. það gera um 2000-2500 km. á ári. Nokkuð, en ekki mikið miðað við undanfarin ár. Brá á það ráð að sitja í hjá nágranna mínum og notast við strætó yfir myrkustu mánuðina. Annars hef ég ekki verið upptekin af því hversu hratt eða mikið ég hjóla. En mælirinn er hvetjandi og vekur oft upp skemmtilega pælingar. Heildarvegalengdin veitir góða tilfinningu fyrir viðhaldi. Hefði viljað hafa heildarvegalengdina frá upphafi þegar ég réðst í ótímabæra (að mínu mati) viðgerð á sveigarsettinu eftir aðeins um 18 mánuði. Þá er gott að miða við 2000 km. sem líftíma keðjunnar en ég skipti um keðju nýlega. Miðað við ástandið á henni þá var það tímabært og ég vona að ég hafi ekki slitið kasettunni illa með því að draga skiptin.