Wednesday, August 17, 2011

Meðfylgjandi myndir sýna lítin hluta af gríðarlegum bílastæðum við HÍ og HR. Hér í HÍ hefur þegar verið tekin upp gjaldtaka við "skeifuna" fyrir fram aðalbygginguna en mér er ekki kunnugt um að slíkt hafi verið gert við HR. Sjálfur er ég gríðarlega ánægður með þessa gjaldtöku enda finn ég alltaf stæði þar þegar ég þarf á að halda og þarf ekki að ganga jafn langt til að sinna erindum mínum þegar ég kem á bíl. En þessar gjaldtökur hafa vakið viðbrögð meðal stúdenta og frekari hugmyndir um gjaldtöku eru mjög umdeildar.
(Bílastæði fyrir framan HÍ HG2011)
(Bílastæði við HR HG2011)
Camebridge háskóli er ein elsta og virtasta menntastofnun í heiminum og þar á bæ eru stjórnendur einnig að glíma við sama vanda og hér á land - of fá bílastæði og of mikið pláss og kostnaður við gerð og rekstur bílastæða. Þeirra ráð eru þau að banna nemum að koma á bílum skólann. Svo einfallt er það. Ein íhaldsamasta stofnun veraldar hefur tekið þá frammúrstefnulegu ákvörðun að hvetja nemendur til að notfæra sér reiðhjól og almenningssamgöngur fremur en að keyra upp að dyrum á eigin bílum (undantekningar eru gerðar fyrir fatlaða). Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og Cambridge borg er í dag ein þeirra borga sem hefur náð hvað mestum árangri við að stemma stigum við bílvæðingunni.

Það sama verður ekki sagt um fjórar af stærstu borgunum í Florida.

Tuesday, August 16, 2011

Skemmtileg þróun við Nauthólsveg

Það hefur heillað mig hvernig hjólreiðamenn fara sínar eigin leiðir óháð aðstöðu fyrir hjólreiðafólk í borginni. Þannig hjóla hjólreiðamenn á móti einstefnu, á gangstéttum, á götum, göngustígum og yfir grasbala svo dæmi séu tekin. Allt eftir því hvaða leið þeir eru að fara og hvað reynist greiðfærast.
Myndin hér að neðan var tekin fyrir tæpu ári síðan og sýnir hvernig hjólreiðamenn hafa markað sín spor í jörðina við Nauthólsveg


(Slóðamyndun við Nauthólsveg HG2010)
 Á leið minni í Öskju í morgun rak ég svo augun í nýlega framkvæmd á sama stað. Svo virðist sem að samgönguyfirvöld í borginn sé með á nótunum og bregðast við á viðeigandi hátt. Þar hefur nú verið byggt upp undirlag fyrir samgöngustíg, væntanlega ætlaðan gangandi-og hjólandi vegfarendum, sem síðar verður malbikað.

(Framkvæmdir við Nauthólsveg HG2011)
Ef að samgönguyfirvöld er næm fyrir þörfum gangandi- og hjólandi vegfarenda geta þessir aðilar þróað samgöngnet borgarinnar í sameingu byggða reynslu þeirra sem nota. Oft hefur manni einmitt fundist sem að sú reynsla sem þegar er til staðar sé virt að vettugi við hönnun borgarumhverfisins. Vel gert!

Friday, August 12, 2011

Aftur að troðmyllunni

Reglulegar ferðir úr BB í HÍ eru hafnar að nýju eftir sumarfrí. Þrátt fyrir að hafa hjólað í allt sumar var ég lítið eitt styrður eftir fyrstu skiptin. Fæturnir eru þó enn eins og nýir enda hafa þeir aldrei verið vandamál eins og sjá má á myndinni hér að neðan.
(HG2011)
Á leið minni um Kópavoginn hef ég undanfarið ítrekað rekist á mann og hund við undirgöngin við hinn sk. "skítalæk". Um er að ræða eldri, virðulegan mann og þann hraustlegasta rottweiler sem ég hef augum litið. Ég stóðst ekki mátið og tók mynd af þeim félögum með samþykki þess sem hafði orð fyrir þeim. Þrátt fyrir illúðlegt útlit og vafasamt orðspor á tímum þar sem að hundar sæta fordómum þá reyndist strákurinn (sem ég man reyndar ekki hvað heitir) kelinn og vinalegur. Ég efast ekki um að eigandinn sé það líka ef að á reynir.

(HG2011)
Sólin er blessunarlega farin að lækka en ég hef aldrei verið barn sumarsólstöðunnar. Kvöld- og náttmyrkrið er mér fremur að skapi og haustið er sá tími ársins þegar ég er í hvað mestri sátt við náttúruna. Ég býð haustið og um leið vetrarhjólreiðarnar hjartanlega velkomnar að nýju. Ég get ekki sagt að ég hafi saknað þess að hjóla í snjó og slyddu en árstíðarnar skyldi bjóða velkomnar og örlögum sínum um leið.