Thursday, March 31, 2011

Danny MacAskill mættur að nýju

Ég er með soft spot fyrir þessum gæja.



...og hvað er þetta með girðingar, handrið og tröppur!!!

Gæinn sýnir borgina, að ég held Edinborg, í óvenjulegu og hversdagslegir hlutir í umhverfinu fá nýtt líf.

Wednesday, March 30, 2011

Sérhagsmunir íbúa við sjávarlóðir í Arnarnesi

Fréttablaðið 30. mars. 2011
Í Fréttablaðinu í dag er frétt undir fyrirsögninni: "Engir stígar neðan sjávarlóða". Fréttin segir frá áformum bæjarstjórnar Gbr. um að leiða hjá samþykkt aðalskipulag í þeim tilgangi að þóknast íbúum við sjávarlóðir í Arnarnesi og leggja ekki göngustíg hjá húsum þeirra.

Hér er væntanlega átt við "bláa-stíginn" sem liggja á um sjávarsíðuna á hbs. frá Straumsvík að Mógilsá. Stíg sem að öll sveitarfélögin á hbs. hafa sameinast um að leggja á komandi árum. Seltjarnarnes og Kóp. hafa nánast lokið sínum hluta og RVK er langt komin. Hfj. og Gbr. hafa þegar lagt kafla en mikið verk er óunnið. Álftanes hefur hins vegar ekkert gert í sínum málum og mér er ekki kunnugt um hvar Mosfellsbær stendur.

Sú ákvörðun að ráðast í gerð stígsins er djörf enda hefur verkið verið unnið á löngum tíma. Hins vegar hefur framkvæmdunum verið vel tekið og stígarnar mikið notaðir af útivistarfólki en ekki síst hjólreiðamönnum. Þrátt fyrir að stígurinn sé fremur hugsaður sem útivistarstígur þá er hann ein helsta samgönguæð þeirra sem hjóla. Á hverjum degi fara um stíginn mikill fjöldi samgönguhjólreiðamanna sem vilja síður hjóla í umferðinni.

Innihald greinarinnar dæmir sig sjálft. Fréttin vekur máls á augljósu viljaleysi bæjarstjórnar í Gbr. til að framkvæma eða a.m.k. ákveða að leggja stíginn fyrir Arnarnes. Höfundur vitnar í Auði Hallgrímsdótt sem segir að hún telji "málið mikilvægt fyrir alla bæjarbúa (Gbr.)" en ég vil meina að málið sé mun stærra en svo og varði alla íbúa hbs. Ég tel að það sé löngu tímabært að hbs. verði eitt skipulagsstig og hrepparígur og heimótt verði útilokuð þegar kemur að skipulagningu byggðar í borginni. Hagsmunir heildarinnar verða að ganga fyrir sérhagsmunum íbúa við sjávarlóðir í Arnarnesi.

Tuesday, March 29, 2011

Ekki er allt gull sem glóir

Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa staðið öðrum sveitarfélögum framar í því að byggja upp hjólaleiðir. Skref í þá átt var gerð Göngu- og hjólaleiðakorts sem sýnir helstu leiðir og tengingar. Þar eru stofnleiðir merktar sérstaklega og maður skildi ætla að þar væru aðstæður eins og best verður á kosið. Það eru þær vissulega víða en ekki allsstaðar. Við Klambratún og Hringbraut fara um fjöldi hjólreiðamanna á degi hverjum. Umferð er þar mikil og flestir halda sig á göngu- og hjólastíg til hliðar við umferðina. En þar er undirlagið með vesta móti - gamlar brotnar hellur sem afar óþægilegt er að hjóla á.

Kortið er ekki fullkomið og leiðakerfið ekki heldur. Ég hef heimildir fyrir því að kortið sé í reglulegri endurskoðun og uppfærslu. Kannski er tækifæri til að beita kortinu og benda á þá staði sem borgin hefur þegar valið sem leiðir fyrir hjólandi og leggja áherslu á hvaða úrbóta er þörf. Borgin er full af stöðum sem þessum þar ekki er allt sem sýnist.

Hellur henta illa sem undirlag fyrir hjólreiðamenn á mikilli ferð - hvað þá veðraðar og brotnar. Hversu lengi haldið þið að ökumenn myndu sætta sig við undirlag sem þetta.

Hellulögn við Klambratún og Hringbraut (HG2011)

Af kortaveitu RVK

29. mars 2011

Það er ýmislegt sem verður á vegi manns á hjólinu. Margt sem maður sér ekki þegar maður situr í bíl. Fyrir fáeinum árum hljóp hæna í veg fyrir mig í Hafnarfirði. Í dag var það kanína.

Kanína í Öskjuhlíðinni (HG2011)

Monday, March 28, 2011

28.mars 2011

Ég var ekki að flýta mér í morgun og fór fyrir nes og voga. Veðrið var frábært og vorið að brjótast fram. Ég varð ekki var við lóuna en hins vegar: gæsir, álftir og æðafugl. Í Sjálandinu hafði virðulegur eldri maður vaðið þangið upp að ökklum til að gefa fuglum brauð. Fuglarnir voru furðu spakir og hugsanlega var þetta ekki fyrsta stefnumótið sem þeir áttu við manninn. 

Fuglamaðurinn í Sjálandinu (HG2011)
Norðanmegin á Kársnesinu er göngubrú sem að mér þykir vel heppnuð. Brúin er einfalt mannvirki sem fellur vel að landslaginu og það er gott að hjóla yfir hana.

Göngubrú í Kársnesi (HG2011)

Félagarnir (HG2011)
Ég tók þá stóru ákvörðun að taka vetrardekkin undan hjólinu í vikunni. Vorið er komið og engin ástæða til að vera lengur negldum.

Friday, March 25, 2011

25. mars. 2011 Er vorið á næsta leiti?


Ég held það. Ég held að það sé farið að vora. Snjórinn sem þakkti borgina fyrr í vikunni er hratt að hverfa og eftir situr saltið og tjaran.
Ég tók þessar myndir á leið minni í Öskju í morgun. Það var frábært að hjóla í skólan - nánast íslaust á götum og slóðum og veðrið æðislegt.

Þokumistur á Álfaskeiðinu kl. 9:30 (HG2011)

Vonandi hverfur þessi haugur í dag (HG2011)

"Salt lake city" (HG2011)

Hjólastandarnir við Öskju eru fljótir að fyllast á góðum dögum (HG2011)


Wednesday, March 23, 2011

Viðgerðir

Ég er það sem kallast "mellufær" í viðgerðum - afsakið orðbragðið - á hjólum. Þrátt fyrir að hjólin bili sjaldan þá kemur alltaf eitthvað upp sem þarf að kippa í lag. Oftast eru það viðgerðir á slöngu sem mér leiðist óheyrilega enda finnst mér að sveitarfélögin ættu að sjá sóma sinn í því að sópa göngu- og hjólastíga reglulega en ekki einu sinni á ári. Maður sér sömu glerbrotin vikum og mánuðum saman og er farin að kalla þau með nafni. En nóg um það. Ég á flest þau verkfæri sem þarf til að sinna minni háttar viðgerðum. Eitt verkfæri hef ég alltaf með mér en það Cordo bike tool - kit sem inniheldur flest þau verkfæri sem þarf til að bjarga sér á götunni. Auk þess hef ég alltaf með mér bætur og smá olíu.

Cordo Bike Tool - kit
Fæst í Hjólaspretti fyrir 3-4000.- kr.

Hins vegar, þegar ég lendi í meiriháttar viðgerðum er um tvennt að velja: Að fara með hjólið í viðgerð -sem ég geri stundum, eða að ath með http://www.bicycletutor.com/. Á þeirri síðu er að finna myndbönd sem sýna leiðbeiningar við flestar viðgerðir og uppherslur varðandi hjól. Síðan hefur reynst mér mjög nytsöm auk þess sem ég hef hreinlega gaman af því að skoða myndböndin:

http://www.bicycletudor.com/
Það er miklu auðveldara að laga biluð hjól heldur flestir gera sér grein fyrir. Margir eru líka alltof fljótir að afskrifa hjólin sem ónýt þó aðeins sjái á þeim eða þau þarfnist viðgerðar. Mér þykir fátt flottara en hjól sem er farið að láta á sjá en þjónar tilgandi sínum fullkomlega. Það ber líka eigendanum gott vitni og endurspeglar þá virðingu sem hann hefur sýnt gripnum.

Tuesday, March 22, 2011

22. mars 2011. Afleitur snjómokstur í morgun!

Undanfarið hefur verið leiðinda færð á götum borgarinnar. Ég lagði hjólin og fór með strætó í staðinn. Þangað til í morgun. Þá dró ég hjólið fram enda langþreyttur á bílveikinni sem undantekningalaust hellist yfir mig í almenningsvögnum.

Satt best að segja var færið þungt fyrir þá sem hjóla. Fjarðarkaupa-tengingin við Garðarbæ var að venju nánast ófær en síst af öllu sá staður sem var erfiðastur yfirferðar. Bílaplanið við verslunina var reyndar til fyrirmyndar - eini staðurinn í bænum þar sem fullkomlega var rutt og eigendunum til sóma.
Tengingin við Fjarðarkaup (HG2011)
Við undirgöngin í Hegranes (í Arnarnesi) við botn Silfurtúns var annar og verri kafli - algjörlega ófær.
Undirgöng: Silfurtún-Hegranes (HG2011)
 Erfiðasti farartálminn var hins vegar í Kópavogi við rætur Kópavogstúns. 
Í Kópavog (HG2011)
Aðstæður löguðust mikið í Reykjavík en þar var greinilega byrjað að ryðja.
Ekkert hafði safnast í stíga við Fossvogskirkjugarð (HG2011)

Vel rutt við undirgöng við Nauthólsveg. Valsmenn komust á æfingu í morgun (HG2011)
Nauthólsvegur var lokaður að þessu sinni en ég hef ekki séð skafa í vegstæði í borginni lýkt og þar áður.
Mannhæðaháir skaflar á Nauthólsvegi og vegurinn lokaður (HG2011)

Ég var snemma á ferðinni í morgun - fyrir kl. 8:00. En það er engin afsökun. Fyrir utan Reykjavík var óþolandi aðkoma að göngu- og hjólastígum. Ávinningur sveitarfélaga af hjólreiðum er töluverður og ef að yfirvöldum er raunverulega alvara með því að auka hlut hjólreiða í samgöngum þá verður að halda leiðum opnum.
Vonandi verður búið að ryðja þegar ég hjóla heim. 

Thursday, March 10, 2011

Fjarðarpósturinn er með á nótunum

Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarpóstsins, var meðal þeirra sem mættu á opin fund um bættar aðstæður til hjólreiða í Hafnarfirði sem að fram fór á fimmtudaginn s.l. Í blaðinu 10. mars gerir Guðni kjarnan af því sem að fram kom á þeim fundi að umfjöllunarefni í leiðaranum:

Úr leiðar Fjarðarpóstsins þann 10. mars 2011
Þá er einnig jákvæð umfjöllun um fundinn í blaðinu:
Úr Fjarðarpóstinum þann 10. mars 2011
Umfjöllun um reiðhjól sem samgöngutæki og þá sem hjóla fær orðið mun meiri umfjöllun en áður í fjölmiðlum og þar er Fjarðarpósturinn engin hælbítur. Jákvæð umfjöllun um ágæti hjólreiða er mjög mikilvæg ef að reiðhjól eiga að ná fótfestu sem samgöngutæki í borginni. Fjölmiðlar ráða miklu um það hvort hjólreiðar eru "main-stream" eða "sub-culture". Það að hjóla verður að vera "eðlilegt" svo að fjöldinn hjóli. Fólki þarf að finnast það vera eðlilegur hluti af umhverfinu en ekki skrýtið, eða óvenjulegt þegar það sest á hnakkinn og hjólar í vinnuna eða á videóleiguna.

Það er ánægjulegt að bæjarblaðið í Hfj. skuli ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum.

Wednesday, March 9, 2011

www.bikesafer.blogspot.com


540hvs from Bikesafer on Vimeo.

Það er sérstakt félagsfræðilegt- og meinningarlegt fyrirbæri þetta "hjólablogg" sem að svo margir halda úti. Ég hef gaman af því að flakka á milli svona blogga og lesa frá reynslu fólks og hvaða hugmyndir það hefur um það að hjóla.

http://www.bikesafer.blogspot.com/ hefur sérstöðu fyrir það að bloggarinn, Jeff, birtir kvikmyndabrot af ferðum sínum. Á meðal þess efnis sem hann hefur sent frá sér eru myndir af honum sjálfum á hjóli í: snjó, ringningu og hálku. En þar eru einnig að finna myndbrot sem sína frá samskiptum hans við ökumenn.

Myndbrotið hér að ofan talar sínu máli og ef þið eruð áhugasöm um að skoða meira þá legg ég til að þið farið inn í bloggið.

9. feb. 2011

Það er erfið færð á götum borgarinnar þessa stundina og leiðir illa ruddir. Ég bregð á það ráð þegar svona árar að skilja hjólið eftir heima og nota Strætó.

Strætó hendar mér frábærlega og ég verð að segja að ég skil ekki háskólanema í Hf. sem keyra í skólann alla daga - sérstaklega núna þegar bensínlítrinn er komin í hæstu hæðir eða  236.- eftir hækkanir dagsins. Leið 1 leggur af stað við Fjörð í miðbæ Hf. og stoppar við gömlu Félagsmiðstöð Stúdenta við Hringbraut. Ferðalagið frá BB er um 35 en það er ekki alltaf svo gott þegar ég fer á bílnum.

Ferðin á bíl tekur að meðaltali um 20-40 mín. eftir færð og traffík. Í strætó er ferðin sjaldan lengri en 35 mín. og á hjólinu er ferðin um 35-45 mín. Hver er þá ávinningurinn af því að fara á bílnum nema maður virkilega þurfi á honum að halda? Er fólk búið að gleyma því að það kostar tæpa 1.000.000.- að reka vísitölubílinn á ári í dag? Vissulega kostar að fara í strætó en ef þú kaupir miða, mánaðar- eða árskort þá er samanburðurinn ójafn við bílinn. Og hjólið er ekki ókeypis - að því gefnu að þú þurfir að kaupa nýtt hjól. Nýtt hjól borgar sig upp á fáeinum mánuðum og eftir það er rekstrarkostnaðurinn óverulegur og alls ekki samanburðar hæfur við bíl.

Ég er ekki að segja að fólki að selja bílinn sinn og hjóla eða nota strætó. En staðreyndin er sú að stærstur hluti okkar ferða eru stuttar ferðir - innan við 4-5 km. Mestan hluta þessara ferða erum við að keyra að óþörfu. Með því að ganga eða hjóla erum við að spara stórfé. Varðandi lengri ferðir þá koma dagar þar sem bíllin er alveg nauðsynlegur. En margar af þessum ferðum er einnig hægt að hjóla eða fara með strætó ef viljinn er fyrir hendi.

Monday, March 7, 2011

"Lifandi" borg

(Gohst Digital)
Eftir niðurrifs-stefnu liðinna áratuga, þar sem fjöldi húsa í miðbæ RVK var látin víkja fyrir "Loftköstulum", sér loks fyrir endann á lágkúrunni.
Stórtækar hugmyndir um "uppbyggingu" miðborgarinnar eru sem betur fer komnar í kælir. Á meðan vinnur tíminn með húsunum sem staðið hafa frá því byggð tók að myndast í borginni. 

Bílvæðingin í RVK á sér margar birtingarmyndir sem ekki hafa eingungis haft áhrif á gangandi vegfarendur eða þá sem hjóla. Í borginni hafa verið rifin- eða flutt gömul hús til að rýma fyrir götum eða bílastæðum.
Þannig hefur glatast menningarsaga og menningarlandslag auk þess sem að sundur-slitin-götumyndin í augnhæð fær á sig óaðlaðandi og óspennandi mynd.
Aðlaðandi og spennandi götumynd eru einkenni „lifandi“ borga og ein af forsendum þess að  fólki gangi eða hjóli. Það að fólk gangi eða hjóli í borgum er svo annað af einkennum "lifandi" og áhugaverðra borga.

Friday, March 4, 2011

Fínn fundur í gær - en hvað svo?

Í Fossvogi. Ein helsta samgönguæð þeirra sem hjóla í borginni (HG2011)

Í gær fór fram fundur á vegum starfshóps um bættar hjólreðasamgöngur í Hafnarfirði í Lækjarskóla. Tilgangur fundarins var að safna saman hugmyndum um hvað megi betur fara í bænum varðandi hjólreiðar sem samgöngukost. Tæplega 40 manns sóttu fundinn og margar góðar ábendingar komu fram. Það var létt yfir fólki og ljóst mörgum þótt gott að geta rætt málin við meðlimi starfshópsins.

En hvað svo?

Fundur sem þessi var góðra gjalda verður og sem slíkur þótti mér hann takast vel. Hins vegar skiptir meira meira máli að fylgja honum eftir og vinna úr þeim upplýsingum sem komu fram. Nú mun starfshópurinn leggjast yfir niðurstöðurnar og skila af sér skýrslu. Hvað gerist svo í framhaldinu er háð raunverulegum vilja bæjaryfirvalda til bæta aðstæður fyrir hjólreiðamenn og um leið að auka lífsgæði íbúanna í bænum.

Það er mín skoðun að ef að hjólreiðar eiga að verða raunhæfur samgöngukostur í HF þá þarf ALLT skipulag bæjarins að miða að því. Ráðast þarf í endurskoðun á gildandi skipulagi og ígrunda vel hvar og hvernig verði komið við innviðum sem miða að því að bæta aðstæður til hjólreiða. Þá verða nýframkvæmdir einnig að taka mið af því sama og þá er mikilvægt að bærinn eigi í góðu upplýstu samstarfi við Vegagerðina þegar það á við.

Mikilvægast af öllu er að átta sig á því að með bættum innviðum á fjölgar þeim sem kjósa að hjóla leiðar sinnar - rannsóknir staðfesta það. Innviðir verða að vera þannig úr garði gerðir að þeir séu vel útfærðir og geri hjólreiðamanninum kleift að ferðast á einfaldan og öruggan hátt á milli bæjarhluta. Rannsóknir sýna einnig að í þeim borgum sem mestur árangur hefur náðst og þar sem lífsgæði íbúa eru talin hvað mest þar er einfaldast og fljótlegast fyrir íbúana að ferðast um á hjóli stóran hluta sinna daglegu ferða.

*Fæstir þeirra sem nota reiðhjól sem samgöngutæki gera það til að stemma stigum við losun gróðurhúsalofttegunda eða vegna lýðheilsusjónarmiða. Fæstir þeirra sem nota reiðhjól sem samgöngutæki gera það eingöngu vegna þess að það er ódýrara heldur en að keyra bíl.

*Fólk hjólar vegna þess að það er einfaldasta leiðin til að komast á milli staða.

Þannig er mikilvægt að blanda ekki saman hjólreiðum og lýðheilsumálum eða umhverfismálum. Hjólreiðar eru skipulagsmál og samgöngumál og með þeim formerkjum þarf að taka á málefnum hjólreiðamanna. Þessu verða bæjaryfirvöld í HF að gera sér grein fyrir ef þeim er raunverulega alvara með því að gera hjólreiðar að raunhæfum samgöngukosti í bænum.

Thursday, March 3, 2011

Hringjarinn frá Notre-Dame

Líkt og Hringjarinn frá Notre-Dame, sem fannst sem ungabarn á tröppum kirkjunnar, þá fann ég þennan aldna hnúfubak við hliðið að Bjarnabæ í gærdag. Hvort það tíðkist enn að skilja munaðarlaus hjól eftir við heimili þar sem vitað er að það fær góðar móttökur skal ósagt látið, en ég færði höfðingjann inn fyrir hliðið og stillti honum upp þar sem hann blasir við hverjum þeim sem gengur Suðurgötuna. Hann er í góðu standi og mér þætti sárt að sjá hann ekki á götunum að nýju. Það er augljóst að hjólinu hefur verið haldið vel við og að einhverjum hefur þótt vænt um það.

Hér með er lýst eftir eigandanum og honum boðið að koma og sækja gripinn og jafnvel þiggja kaffi. Verði hann ekki sóttur mun ég koma honum í örugga geymslu.

Trek 930 Singletrack 199? (HG2011)


3. mars 2011

Undanfarana tvo daga hef ég farið með strætó í RVK. Á þriðjudaginn var leiðinda slabb á öllum leiðum og ég hefði mætt eins og blautur hundur til leiks. Auk þess sem mig langaði mæta borgaralega klæddur til tilbreytingar. Í dag fór ég svo aftur með strætó vegna þess að ég hafði Breka með mér í vagninum. Þótt ég sé þegar búin að setja hann í barnastólinn og hjóla með hann þá legg ég ekki á hann 25 km. í mars - hann er nú bara 6 1/2 mánaða.
Þótt ég kjósi helst að hjóla þá er gott að fara með strætó og það hentar mér vel: 5 mín. rölt frá BB í Fjörð, 25 mín ferð með vagninum og 5 mín. rölt í Öskju. Á leiðinni er hægt að lesa blöðin eða hugsa sinn gang. Þá hef ég gaman að fylgjast með fólkinu sem streymir inn- og úr vagninum. Strætó er tímalaus staður og manni líður nákvæmlega eins og þegar maður fór í fyrsta skiptið með Landleiðavagninu. Þá er engin stéttaskipting, allir jafnir í sínu sæti - fyrir utan auðvitað bílstjórann.
350.- kr. ferðin er auðvitað nokkuð mikið miðað við það sem áður var. Hægt er að kaupa 11 miða kort á 3000.-  kr. og þá skilst mér að ferðin geri tæplega 275.- kr. sem er allt í lagi og margfalt ódýrara heldur en að keyra einkabílinn ef reksturinn er tekin með í reikninginn.

Leið 1: Fjörður-HÍ (HG2011)

Wednesday, March 2, 2011

2. mars 2011 Homo Geographycus


Mongoose Sabrosa 3x8 í Nauthólsvík (Homo Geographycus 2011)
Á sólríkum sumardögum fjölmenna höfuðborgarbúar í Nauthólsvík og sleikja sólina. Á veturnar er engu síðra að tilla sér í sandinn og hugsa sinn gang þótt að hitastigið sé ekki hátt. 

Tuesday, March 1, 2011

Húsin í leiðinni

Þá er komið að næsta húsi í leiðinni: Nauthóll í Nauthólsvík
Nauthóll (das2011)
Ég get ekki sagt að mér finnist þetta sérstaklega fallegt hús en fyrir hvar það er, og hvað það er, þá er þetta eitt af mínum uppáhalds húsum. Húsið er frábærlega staðsett á besta stað við hjólreiðastíginn í Nauthólsvík og Nauthólsvíkina sjálfa, sem að mínu mati er eitt besta útivistarsvæði á höfuðborgarsvæðinu. Í Nauthól er hægt að fá fínan mat á ágætis verði - ég hef sannreynt það. Eini gallinn við staðinn er sá að hann virkar ekki sem áningarstaður fyrir þá sem hjóla vegna þess að þetta eiginlega of "fínn" staður. Þannig er þetta ekki svar við ósk minni um stað fyrir þá sem hjóla eða ganga með hundana sína eins og lýsti í færslu hér að neðan. En sem ressi: á frábærum stað, í skemmtilegu húsi með útsýni við gott útivistarsvæði; þá er þetta frábær staður. Það er nefninlega lítið um þjónustu á útivistarsvæðum - hvað þá veitingasölu.
Nauthólsvík (ja.is)

Slow food, slow travel, slow design ...slow bicycle!!!



Var bent á þessa síðu. Skemmtilegur menningarafkimi.

Opin fundur um bættar hjólreiðasamgöngur í Hafnarfirði

Eftirfarandi auglýsingu er að finna á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar: http://www.hafnarfjordur.is/. Ég skora á alla sem láta sig málið varða að mæta og koma fram með hugmyndir. Einnig vil ég ýtreka að hægt er að koma á framfæri ábendingum og hugmyndum á heimasíðu bæjarins.

Bæjarbúum er boðið á opinn fund í Lækjarskóla ,fimmtudagainn 3. mars frá kl. 19.30 - 21.00, þar sem hægt er að koma með ábendingar og tillögur varðandi hjólreiðamál í Hafnarfirði. 
Markmiðið með fundinum er að leita leiða til að bæta hjólreiðasamgöngur í bænum.

Fjögur  meginumræðuefni verða á fundinum ásamt umræðuborðum með hópstjórum sem leiða umræðuna.
  • Samgönguhjólreiðar
  • Frístundahjólreiðar
  • Tengingar hjólaleiða
  • Hjólafærni og öryggi hjólreiðamanna
 Allir þeir sem láta sig þessi mál varða eru hvattir til að koma og hafa áhrif.

Það er einnig hægt að koma með ábendingar hér á heimasíðu bæjarins og eins á netfangið: berglindg@hafnarfjordur.is

Auglýsing á heimasíðu HF