Thursday, January 27, 2011

27. jan. Hjóladagbók

lítils háttar rigning
sunnan 4 m/s
3°C

Það var reyndar engin "lítils háttar rigning" þegar ég lagði í hann í morgun kl. 9:15 - miklu fremur súld (Súld eða úði er úrkoma, sem fellur til jarðar sem tiltölulega smáir vatnsdropar (þ.e. minni en 0,5 mm) og fellur úr þokuskýjum Heimild: Wikipedia.is). Þrátt fyrir bleytuna var hlýtt og notalegt að hjóla og ég var komin á réttum tíma í fyrirlestur hjá Rannveigu í ERÍI kl. 10:00. Ég hafði ekki fundið regbuxurnar áður en ég lagði af stað og mátti sætta mig við að vera rassblautur í tvo tíma.
 
Leiðin heim var ekkert nema átök. Ég var ekki alveg með á nótunum og lagði allt of seint af stað heim til að fara með Rósu og Kristófer á sundnámsskeið kl. 17:30. Ég lagði af stað kl. 16:45 og var komin í Bjarnabæ kl. 17:16. Að þessu sinn hjólaði ég alla leiðina á götum (Bústaðarveginn, Kringlumýrarbraut og Hafnarfjarðaveginn) frá Hlíðarenda. Mér líður aldrei vel á götunum en þegar ég þarf að komast heim með hraði vel ég þessa leiðina og spara mér um 7-10 mín. En þettar er engin skemmtun.
 
Hugleiðingar:
Malbiksfræsingar eru banagildrur

Trip dist: 24.820
Trip time: 1:13:41
Avg. speed: 20.25
Max spee: 43.27

Saturday, January 22, 2011

Sjónarhóll

Þegar maður hjólar um borgina upplifir maður borgarumhverfið á annan hátt heldur en í bíl og hversdagslegir hlutir öðlast nýja merkingu. Skilningarvitunum eru lítil takmörk sett á hjóli en afar takmörkuð í bíl. Þannig er hjólreiðamaðurinn í beinum tengslum við náttúruna í borginni en ökumaðurinn einangraður frá umhverfinu. Eftirfarandi eru þrjú dæmi um það sem hjólreiðamaðurinn sér en ökumaðurinn ekki.

Í Hafnarfirði, líkt og í öðrum sveitarfélögum á hbs, hefur verið lagt í gerð á s.k. strandstíg eða "bláum" stíg. Blái stígurinn er hluti af göngu- og útivistarstígakerfi hbs sem sveitarfélögin hafa sameinast um að framkvæma við strandlengjuna. Framkvæmdum miðar ágætlega (nema í Arnarnesi og á Álftarnesi) og ég leyfi mér fullyrða að þessir stígar eru einhver mest notuðu útivistarsvæði í borginni. Fyrir fáeinum árum réðst Hafnarfjarðarbær í framkvæmdir við sinn hluta og afraksturinn er bar nokkuð góður. Íbúar hafa notfært sér þessa fallegu leið og undantekningalaust er þar fólk á gangi eða á hjóli. Hjólandi og gangandi eiga reyndar ekki alltaf samleið og því eru hjólreiðamenn og gangandi aðgreindir með óslitinni línu. Á einum stað, á Herjólsgötunni, við hraðhindrun og gangbraut er að finna sérstakt fyrirbæri sem einungis þeir sem eru á hjóli sjá. Á nákvæmlega miðjum þess hluta sem ætlaður er hjólreiðamönnum hefur verið komið fyrir skilti. 


Annað áhugavert fyrirbæri er að finna í Sjálandinu í Garðarbæ. Þar hafa bæjaryfirvöld lagt sig fram um að leggja skemmtilegan og greiðfæran stíg um hverfið sem nýtist gangandi og hjólandi. Þeir hafa reyndar ekki látið verða af því að aðgreina vegfarendur en stigið skrefið lengra að öðru leyti. Þar er að finna tvö hringtorg, með stuttu millibili, sem hlýtur að vera ætlað að auka umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Á öðru þeirra hefur svo verið komið fyrir grjóti í óljósum tilgangi. Í myrkri er þessi hnullungur nánast ósýnilegur og ég hef ákveðnar efasemdir um tilverurétt hans.


Steinsnar frá hringtorginu eru hins vegar skemmtilegan gjörning að finna. Textabrot hefur verið málað á stíginn. Textarnir eru, að ég held, samhengislausir en lífga upp umhverfið og vekja upp spurningar. Ég hef mjög gaman af þessu og tel að þetta sé skemmtilegt dæmi um það hvernig hægt er að færa menninguna út á göturnar, í bókstaflegri merkingu


Wednesday, January 19, 2011

19. jan. Hjóladagbók

Lítils háttar vindur
sunnan 6 m/s
hiti 4°C

Lagði af stað kl. 9:15 við góðar aðstæður: t.t. hlýtt, hæg gola og auðar en blautar götur. Að þessu sinni var ég ekki á leið i skólann heldur í Skútavoginn til að taka viðtal. Viðtalið gekk vel og að því loknu hélt ég í miðbæinn og fékk mér snæðing. Að því loknu mætti ég í Öskju og vann í verkefnum.
Um 18:15 hjólaði ég heim og þá voru aðstæður ekki jafn góðar: slydda, hvasst á köflum og krap á götum. Þrátt fyrir það gekk leiðin heim einnig vel og ég var sáttur þegar ég kom í kvöldmat til Sirrý á N24.

Það að hjóla Reykjanesbrautina í RVK er bæði gott og slæmt. Leiðin frá Hafnarfirði og "fljúgandi" hringtorginu á mörkum Garðarbæjar og Kópavogs er bara nokkuð góð. Á þessum kafla er vegöxl þar sem hjólreiðamenn geta verið nokkuð öryggir þrátt fyrir hraða og þunga umferð. Það er að vísu alltaf óþægilegt og áhættusamt að þvera að- og fráreinar en á þessum kafla eru þær ekki margar. Hins vegar er kaflinn frá Kópavogi og að Holtagörðum hreinasta hörmung. Þar er engin aðstaða fyrir hjólreiðar nema á götunni og þar er óþægilegt að hjóla. Þaðan styttist svo að stíg, meðfram sjávarsíðunni sem færir þig öruggt og þægilega í miðbæinn. Að vísu er leiðin rofin við Hörpuna en það er tímabundið. Ég óttast hins vegar að áður nefndur "hörmungar" sé komin til að vera.

Annars var flautað á mig á Kalkofnsveginum en það er nú ekki algengt. Ég fæ alltaf smá kjánahroll þegar það er flautað á mig. Í Öskjuhlíðinni, á heimleiðinni, fékk ég svo að heyra það frá göngufólki. Þar hefur að undanförnu verið unnið að því að aðgreina göngu- og hjólastíga og ég hafði villst inn á göngustíginn í myrkrinu: "ÞÚ ÁTT AÐ VERA HINUM MEGINN".

Trip dist: 33.10
Trip time: 1:51:28
Avg. speed: 17.82
Max speed: 42.13

Tuesday, January 18, 2011

Hjólið í forstofunni

Stundum hittir þannig á að maður á einfaldlega ekkert erindi á hjólinu. Þá stendur það hreint og strokið og býður þess að vera dregið fram. Hjólið mitt hefur staðið í forstofunni síðan á föstudaginn. Þannig hefur háttað að ég hef þurft að nota bílinn til að erindast og útrétta um víðan völl. Stundum verður ekki hjá því komist að keyra.
Hér áður fyrr fylltist ég sektarkennd yfir því að hjóla ekki og fannst eins og ég væri að svíkja "málsstaðinn". Þrátt fyrir það er ég ekki öfgasinnaður hjólreiðamaður sem fyrirlít ökumenn. Ég keyri mikið. Ég rek stórt heimili; þrjú börn, tvö hunda, margréti og tvö ketti. Það er í mörg horn að líta, eilíft skutl og sendiferðir. '
Á einhverjum tímapunkti komst ég að því að þetta var ekki sektarkennd heldur söknuður og tilhlökkun. Ég saknaði þess að hjóla vegna þess að mér finnst það skemmtilegt og það veitir mér vellíðan að koma heim eftir góðan hjólatúr. Það er nefninlega þannig; að mér líður vel áður ég hjóla af því að ég hlakka til, mér líður vel á meðan ég hjóla af því að mér finnst það skemmtilegt og mér líður vel þegar ég er búin að hjóla vegna þess að þá streymir endorfín um líkamann og ég hef gert eitthvað fyrir sjálfan mig. Þannig eru hjólreiðar í mínum huga hvorki skylda eða hvöð, hugsjón eða sjálfskaparvíti, heldur einlæg ánægja og gleði.

Friday, January 14, 2011

Hjóladagbók 14. jan.

Lítils háttar rigning
Austan 4 m/s
Hiti 4°C

Lagði t.t. seint af stað í dag eða um 12:15. Verkefni dagsins var að vera viðstaddur meistaravörn í HR hjá þjóðverja sem heitir Sebastian Peters og fjallaði um samrými (e. shared space) og möguleika þess fyrirbæris í RVK. Viðburðurinn var áhugaverður og ég verð að segja að Sebastian var skemmtilegur og kastaði fram nokkrum góðum pælingum.

Ferðinn inn eftir gekk ágætlega og ég var ekki nema 37 mín. á leiðinni, sem er ágætt miðað við aðstæður. Að vísu fór ég óhefðbundna leið; Strandgötuna og Reykjarvíkurveginn, um Engidal í Garðarbæ og inn á Silfurtún. Þegar þangað var komið var ég á kunnuglegum slóðum
Á leiðinni til baka stoppaði ég í HR og hlýddi á vörnina. Þegar komið var í Hafnarfjörð stoppaði ég í Ofice one og keypti Andrésblað fyrir Rósu. Þaðan fór ég til Ömmu og horfði á fyrri hálfleik í landsleiknum (Ísl-Ung á HM í handbolta) og síðan á æfingu. Þjálfaði tvo flokk og loks hélt ég heim.
Meðalhraðinn var ekkert sérstakur í dag og hefði getað verið mun betri þar sem aðstæður voru góðar. Ég fylgdi hins vegar Björk heim af æfingu þar sem hljóp og ég hjólaði. Krakkinn er í tudda standi og skokkaði fyrirhafnalaust heim. Vel gert Björk.

Ég fékk að venju einhverja frábæra hugmynd á leiðinni en gleymdi að skrá hana hjá mér. Vonandi kemur hún aftur í næstu ferð. Það er nefninlega þannig að á hjólin frelsa ég hugan undan daglegu amstri og fæ oftast snilldarhugmyndir. Synd hvað margar af þeim glatast um leið og stíg af baki.Trip dist: 27.11 km. (til og frá ...með sjá úturdúr)
Trip time: 1:36:00
Avg. speed: 16.94
Max speed: 48.31

Thursday, January 13, 2011

Strákarnir í Guadalajar láta ekki bjóða sér hvað sem er?Grasrótinn í Guadalajar í Mexíkó lætur verkin tala.

13. jan. Hjóladagbók

Austan átt, 16. m/sek
Skýjað
Hiti 1-2°C

Það var hvasst í morgun þegar ég lagði í´ann og ég bölvaði vindinum á Tjarnargötunni í Hafnarfirði. Það er merkilegur þessi strekkingur sem oft æðir niður með læknum. Ég var létt klæddur enda hiti komin yfr frostmark og ég var fljótur að hitna. Það er ágætis regla að klæða sig þannig á búkinn að þér er hrollkallt í upphafi en eftir 5-10 mín. er þér orðið þægilega heitt. Ferðin gekk ágætlega og ég var komin tímanlega fyrir fyrsta fyrirlestur dagsins.
Á bakaleiðinni var komin hríð og skafrenningur en það var ekki kallt. Fyrir utan á Nauthólsveg var ég með vindinn í fangið. Þegar komið var í Fossvoginn hafði ég hann hins vegar í bakið og vel gekk að hjóla heim. Þrátt fyrir hríðina fannst mér kósý og skemmtilegt að hjóla heim. Færið var ennþá gott og ég vona að það verði ennþá gott á morgun.

Tölfræði dagsins:
trip dist: 26.01 km. (til og frá)
trip time: 1:35:27
avg. speed: 16.35
Max speed: 41.41

Hugleiðingar
Fátt markvert gerðist nema það að þegar ég var á leið yfir gangbraut við Flatahraunið, austan hringtorgsins við Krikann, þá mátti minstu munað að ekið væri yfir mig. Áður hafði ég alltaf farið yfir torgið eins og bílarnir en eftir að ekið var á mig á þessum stað hef ég farið hjólastíginn, bak við skúrana á Álfaskeiðinu og notað undirgöngin. Þessi krókur tefur mig en mér líður betur með að fara þarna. Hins vegar er leiðinlegt að komast yfir á Bæjarhraunið og hluti af því er að fara yfir umrædda gangbraut. Það er bara eins og bílar sem koma þarna að geri ekki ráð fyrir neinu öðru en bílum á þessum slóðum. Sá sem ók á mig sá mig aldrei fyrr en ég lá á húddinu hjá honum. Konan sem keyrði svarta Bensjeppan (já hann var svartur en ekki sjálflýsandi) sá mig heldur ekki.
Ég heyrði að hringtorgið hefði verið kynnt sem "öruggt" hringtorg með "öruggum" gangbrautum (sem reyndar eru ekki margar heldur aðeins ein) þegar ráðist var í verkið. Það er ekki mín reynsla og ég er reyndar efins um hringtorg almennt þegar kemur að gangandi og hjólandi vegfarendum. Margir hjólreiðamenn eru óöryggir í hringtorgi enda er að mörgu að hyggja fyrir akandi og hjólandi á slíkum torgum. Svo er gangbrautir yfirleitt nálægt torginu og þá eru ökumenn að fylgjast öllu öðru en því hvort einhver er á gangi þegar þeir keyra út úr torginu.
Víglundur vinur minn flutti í morgun til borgarinnar Brisbane í Ástralíu, ásamt konu sinni og börnum. Þar eru nú stórkostleg flóð en samkvæmt RÚV er flóðasvæðið á stærð við Frakkland og þýskaland til samans! Hann getur hins vegar huggað sig við það að þar eru borgarhjól í boð fyrir þá sem vilja leigja eða fá lánað. Eins og sést á myndunum eru aðstæður til hjólreiðar ágætar í borginni þrátt fyrir stöku "polla".

Hringtorg frá helvíti

Hér að ofan má sjá eitt versta hringtorg sem ég þarf að fara framhjá á hverjum degi: gatnamót Reykjanesbrautar, Flatahrauns og að einhverjum óskiljanlegum ástæðum Bæjarhrauns! Ólíkt mörgum öðrum hringtorgum þá eru þar fimm að- og fráreinar en oftast eru þær ekki fleiri en fjórar.  Þarna voru fyrir umferðarljós og oft hafa orðið þarna slæmir árekstrar og nokkur alvarleg slys. Síðan ráðist var í gerð hringtorgsins hefur hins vegar slysum fækkað til muna og mér er ekki kunnugt um alvarleg slys á fólki. Hringtorgið hefur s.s. haft tilætlaðan árangur; að stýra umferðinni, minka hraðann og fækka slysum. Það vill hins vegar svo til að ég er einn þeirra sem hef lent í slysi, á hjóli, á þessu hringtorgi. Ég lagði það í vana minn (ég er reyndar hættur því í dag) að hjóla á götunni og haga mér eins og bíll á þessu hringtorgi. Þá kom ég jafnan frá Flatahrauni, úr vestri, á leið í Krikann eða til RVK. Það hafði gengið ágætlega eða allt fram að 16. 11. síðastliðin að það var ekið á mig á þegar ég var á leið út úr torginu og inn á Bæjarhraun. Lítill sendiferðarbíll sem einnig var að koma af Flatahraun (úr austri) keyrði beint inn á torgið og á mig; hægði á sér en stoppaði ekki. Vissulega voru aðstæður erfiðar; dimmt og rigning, en ég var vel upplýstur, með ljós að framan og aftan. Mér varð ekki verulega meint af. Jafnaði mig á 2-3 vikum og hjólið slapp óskemmt. Hins vegar var stoltið sært og síðan hef ég reynt að sneiða hjá þessu torgi. En það er eitt og annað sem ég vil koma að varðandi þetta hringtorg:
-     Í fyrsta lagi er torgið staðsett við eitt mest notaða útivistarsvæði bæjarins, Kaplakrika, þar sem fara um þúsundir (flestir börn og unglingar) á degi hverjum.
-     Í öðru lagi þá eru 5 að- og fráreinar við torgið sem gerir það meira krefjandi að fara  um.
-     Og í þriðja lagi þá er það mér með öllu óskiljanlegt af hverju aðeins ein gangbraut (yfir Flatahraun, austan megin) er við Hringtorgið.
Þetta hringtorg er hið mesta ólán. Í raun og veru er skipulag fyrir þetta svæði slæmt og þarfnast mikillar endurskoðunar og úrbóta. Þarna virðist einfaldlega ekki gert ráð fyrir öðrum vegfarendum heldur en ökumönnum. Þrátt fyrir það er þarna fyrir útivistarsvæði sem börn og unglingar nota að mestu. Vissulega eru ein undirgöng, undir Reykjanesbrautina, skammt frá torginu í norðri. En þau eru ekki gallalaus og til að nota þau þarf að leggja lykkju á leið sína. Þetta á í raun við um allt þetta svæði sem áður var fyrst og fremst iðnaðarsvæði en í dag er að breytast í: léttiðnaðar-, verslunar- og þjónustuhverfi. Ætlir þú að ferðast þar um gangandi þá eða hjólandi ertu á afar fáum stöðum „óhultur“ eða á öruggum stað.
Ég á örugglega eftir að taka þetta svæði frekar fyrir síðar enda fer ég þarna um daglega; stundum á bíl, stundum á hjóli og stundum gangandi.

Wednesday, January 12, 2011

11. jan. Hjóladagbók

Hjólaði í skólann í gær en gafst ekki tækifæri til að færa inn ferðina fyrr en í dag.

Aðstæður voru þokkalegar; hálfskýjað, norðan gola og -8°. Leiðin inn eftir gekk þokkalega og ekkert markvert gerðist. Á leiðinni til baka varð ég hins vegar að gefa svolítið í af því að ég var að verða of seinn að þjálfa í Afreksskólanum. Það markverðasta gerðist fyrir fram HR þegar ég flaug á hausinn í hálku. Gangstéttar fyrir framan bygginguna eru steyptar og rennisléttar. Ég tók skarpa beygju og missti gripið með þeim afleiðingum að ég datt á síðuna. Vont! Eftir að hafa staulast á fætur hjólaði ég vandræðalaust heim.

Hugleiðingar
Hvað er þetta með þetta risastóra bílastæði við HR? Hvernig tíma borgaryfirvöld að fórna þessu stóra landssvæði á "besta" stað í borginni við eitt helsta útvistarsvæðiði borgarbúa undir malbik og bíla. Stæðin eru líka sjaldan ef nokkurn tíman fullnýtt. Auk þess eru hjóla- og göngustígar úr öllum áttum að skólanum auk þess að strætó gengur heim að dyrum. Ég skil þetta ekki og vona að einn daginn verði þessu flett af.

Statistic (til og frá)
Total trip: 27.27 km.
Total time: 93:49 mín
Avg. speed: 17:45
Max speed: 41:41

Umferðaröryggi og útbúnaðarárátta 2/2

Í mínum huga er það svo að hver og einn á rétt á að velja í hverju hann hjólar. Viljirðu Lycra þig frá toppi til táar þá er það fínt. Viljirðu renna á jakkafötunum þá er það líka fínt. Og viljirðu hjóla hjálmlaus á stuttbuxum í töflum og bera á ofan þá er það líka allt í lagi. Aðal atriðið er að fatnaður og útbúnaður er engin fyrirstaða. Hjólið verður að verður sjálfsagður og fyrirhafnarlaus hluti af daglegu lífi ef að hjólreiðar eiga að ná fótfestu sem samgöngumáti. Allt of margir líta á það sem vesen að hjóla og telja að það þurfa að eiga dýrt og fullkomið hjól. En það er alls ekki svo. Hjólið er í eðli sínu ekkert öðruvísi en sláttuvél eða brauðrist. Við notum þessi tæki á hversdaglegan hátt og þetta eru eðlilegir hlutir í umhverfinu en ekki gestir eða fyrirbæri.

Tuesday, January 11, 2011

Umferðaröryggi og útbúnaðarárátta 1/2

Stærðfræðingurinn og stjórnlagaþingmaðurinn Pawel Bartoszek skrifaði áhugaverða grein undir fyrirsögninni "Bíllinn í stofunni" á netmiðli Vísis um bílvæðinguna í Reykjavík og hvernig öðrum samgöngumátum er haldið niðri af bílistum. Hann fjallar enn fremur um það hvernig gangandi og hjóland beri nær alla ábyrgð á sjálfum sér fremur en ökumenn á öðrum vegfarendum. Þannig sé sjónum fyrst og fremst beint að því hvernig gangandi og hjólandi séu útbúnir í umferðinni heldur en því hvort bílvæðingin og forgangur bíla beri einhverja ábyrgð á slysum:

Því miður eru flestar stofnanir samfélagsins meðvirkar í þeim hugsunarhætti að miða allt út frá fílnum (bílnum). Gangandi bíða lengi eftir græna kallinum svo fílahjörðin þurfi ekki að nema staðar að óþörfu.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hjálmar séu óþarfir á hjóli. Um það votta margar rannsóknir þrátt fyrir öðru sé haldið fram. Hjálmaskylda er slæm hugmynd enda sýnir það sig að þar sem að hún er tekin upp verður fækkun á hjólreiðamönnum og það er ekki það sem borgaryfirvöld stefna að ef eitthvað er að marka Hjólreiðaáætlun borgarinnar. Það yrði í raun ólöglegt að hjóla án hjálms og þeir sem það gerðu yrðu brotlegir samkvæmt umferðalögum!!! Það sama ætti að gilda um vesti eða sjálflýsandi klæðnað. Slíkt getur aldrei orðið hjólreiðum til framdráttar og í raun setur hjólreiðamönnum ákveðnar skorður og letja fólk til að hjóla. Ég hef verið stoppaður af lögreglunni og hvattur til að klæðast slíku vesti. Lögreglumaðurinn var sjálfur á svörtum bíl og ég gat ekki séð að hann klæddist slíku vesti og því síður hjálmi. Varðandi ljósin þá þykir mér sjálfsagt mál að hjólreiðmenn hafi ljós á hjólum sínum; fyrir sjálfa sig og aðra. Um umferðaröryggi segir Pawel og orðar ágætlega:

Öll áherslan í umferðaröryggismálum ætti að vera á það að minnka þá hættu sem bílar valda fólki, og hvetja fólk til að spara óþarfar bílferðir og fara um eftir öðrum leiðum. Þess í stað dynur á okkur áróður um hve hættulegt sé að vera labbandi. Þeir klikkhausar sem það kjósa þurfa að merkja sig í bak og fyrir og klæðast hlífðarbúnaði. En umfram allt þurfa menn að passa sig. Á fílunum.

Frekari umfjöllun um efnið má finna RÚV í morgun.

Sunday, January 9, 2011

Samhjól

Þá er komið að fyrstu færslunni í hjóladagbókina. Í morgun fór ég í "samhjól" með hjólreiðafélaginu Bjarti í Hafnarfirði.

Það var gaman að renna upp að Ásvallalaug í myrkrinu í morgun og sjá öll rauðu ljósin (á hjólunum) loga fyrir framan innganginn. Þar voru saman komnir rúmlega 40 hjólreiðamenn, mest karlar, á aldrinum 30-50 ára (MAMIL). Fleiri áttu eftir að  bætast við og líklegast hefur fjöldin verið +50 þegar lagt var af stað. Fáeinar vaskar konur voru einnig í hópnum og þótti mér það góðs viti og taldi mér trú um að ég gæti í það minnsta haldið í við þær.

Hjólaður var um 33 km. hringur um Hafnarfjörð á ca. 2 tímum. Aðstæðar voru góðar: hæg norðan átt og -8 - -10 gráður. Leiðin var skemmtileg og ég naut þess að ellta þessa kalla uppi. Margir þeirra eru í góðu formi og kunna að hjóla. Sjálfur er ég ánægðastur með standið á sjálfum mér og hjólið mitt. Ég hélt í við fremstu menn lengstum og nýja hjólið virkaði vel. Að vísu var þarna pía sem að saltaði mig á einum leggnum og þar með má ég éta ofan í mig það sem ég lagði upp með; að halda í við stelpurnar.

Það sem eftir situr eru vangaveltur um fyrirbærið "samhjól". Hvað er það eiginlega. Er það annað orð yfir hjólatúr eða annað orð yfir hjólaæfingu? Kanski bara hvoru tveggja? Ég var auðsjáanlega ekki komin á hjólaæfingu en samt var tekið svo hraustlega á því, að þetta getur heldur ekki talist hjólatúr í hefðbundnum skilningi þess orðs.

Ég vil þakka þeim félögum í Bjarti fyrir frábæra hjólasamveru í morgun og ekki síður fyrir veitingarnar í lok ferðar - ekki síst orkudrykkurinn. Ég ætla að halda áfram að fylgjast með því hvað þeir félagar eru að bralla og langar aftur með þeim út að hjóla.

Saturday, January 8, 2011

Culture of fearÞessi gæi kann að koma fyrir sig orði. Skemmtilegur fyrirlestur um the risk society. Ég vil vekja sérstaka athygli á umræðunni um ungbarnahjálmana.

Friday, January 7, 2011

Mælir

Ég er þeirrrar skoðunar að það að hjóla sé einfaldur lífsstíll. Hjólið sjálft þarf ekki að kosta mikið og fatnaður og útbúnaður á að vera í lágmarki. Það að hjóla er jafn sjálfsagður hlutur og að ganga eða að keyra og það þarf ekki að setja sig í neinar "stellingar" áður en sest er á bak. Þrátt fyrir þessar göfugu hugmyndir hef ég aldrei átt dýrara og fullkomnara hjól heldur en í dag. Ég er líka vel útbúin og Lycra (-aður) frá toppi til táar. Þannig er ég í hrópandi andsögn við sjálfan mig og því sem ég held fram. En það kemur ekki til af ástæðulausu. Staðreyndin er sú að þegar maður hjólar t.t. langar vegalengir daglega er betra að vera vel útbúin á góðu hjóli. Það skilja þeir sem reynt hafa.

Í dag lét ég verða að því að kaupa hraða- og kílómetramælir. Fyrir valinu varð Sigma BC1009 sem fæst á 4990.- í GÁP. Mælirinn býður upp allt það sem ég sækist eftir:

- Km. frá upphafi
- Km. stakra ferða
- Hraði
- Meðalhraði stakra ferða
- Klukka
- Ofl. sem skiptir minna máli í augnablikinu.

Tilgangurinn helgar meðalið. Ég hef í hyggju að halda hjóladagbók þar sem ég skrái niður ferðir mínar: kílómetra á dag, tímann og meðalhraðann. Um leið mun ég skrá niður það markverðasta sem á vegi mínum verður og hugrenninga tengda hjólreiðum. Við það verður til gagnabanki sem hugsanlega getur nýst mér við rannsóknarverkefnið. Hvernig, er en ekki ljóst en mestu máli skiptir er að byrja og sjá hvert það leiðir mig.

Ég lýsi hér með eftir hugmyndum og skoðunum. Eins væri gaman að heyra frá einhverjum sem hefur reynslu af notkun mæla eða hefur haldið hjóladagbók.

Tuesday, January 4, 2011

Gjörningur


Myndin talar sínu máli.

Grein: Ímynd hjólreiða og hjólreiðamanna í Sydney


Í  nýjasta hefti Transport Policy er birt grein undir heitinu: Perspectives and images of cycling as a barrier or facilitator of cycling, skrifuð af M. Daley og C. Rissel.

Í greininni segja höfundarnir frá eigindlegri rannsókn á hugmyndum og staðalmyndum um hjólreiðar í Sydney í Ástralíu. Tekin voru viðtöl við: hjólreiðamenn sem hjóla sér til dægrastyttingar sem og þá sem hjóla reglulega, en einnig þá sem ekki hjóla. Í niðurstöðunum kemur fram að ímynd hjólreiða og hjólreiðamanna hefur áhrif á aðra vegfarendur og getur einnig haft áhrif á þróun reiðhjóla sem samgöngutækis.
Hjólreiðar eru almennt álitnar heilsusamlegar og umhverfisvænar. Hins vegar eru hjólreiðamenn, sérstaklega þeir sem hjóla reglulega (samgönguhjólreiðamenn) gjarnan litnir hornauga í umferðinni. Þannig tilheyri hjólreiðarmenn jaðarsamfélagi og því þurfi að breyta  og hjólreiðar að verða „mainstream“. Jafnframt þurfi að eyða fordómum sem tengjast útbúnaði og lífstíl hjólreiðamanna eigi reiðhjól að ná fótfestu sem samgöngutæki:
To attract more people to cycling and in particular to cycle commuting, riding bikes needs to be viewed and promoted as a mainstream activity that can be undertaken by almost anyone, without the need for special clothing, espensive equipment or limited to purpose built facilities.
Nokkrir áhugaverðir punktar komu fram í greininni og sumir þeirra eru í samræmi við vísbendingar úr yfirstandi rannsókn. Þannig eru hjólreiðamenn í Sydney á svipaðri skoðun og hjólreiðamenn á höfuðborgarsvæðinu að hjólreiðar séu auðveld, hagkvæm og umhverfisvæn leið í samgöngum. Flestir þeirra lærðu að hjóla ungir, finnst það skemmtilegt og þeir telja sig vera í betri tengslum við umhverfið á hjóli heldur en í bíl. Þeim er umhugað um öryggi sitt og telja að efla þurfi innviði[1] fyrir hjólreiðamenn. Sumir ganga svo langt að halda því fram að hjólreiðamenn eigi alls ekki heima í umferðinni. Margir þeirra hafna þeirri staðalmynd að hjólreiðamenn séu íþróttamenn. Þeir kjósa að nota hjólið eingöngu sem samgöngutæki í daglegu lífi. Það koma einnig fram vísbendingar um að hjólreiðamenn fari sínar eigin leiðir og virði ekki alltaf umferðareglurnar. Í því sambandi er bent á að slík hegðun geti haft neikvæð áhfrif á ímynd hjólreiðamanna viðhorf annarra vegfarenda og þeirra sem ekki hjóla til hjólreiðamanna. Undirliggjandi er baráttan um (götu-) rýmið þar sem takast á ökumenn, hjólreiðamenn, gangandi vegfarendur og almenningur.
Það sem mesta athygli mína vakti voru umræður um jákvæða ímynd hjólreiða en neikvæða ímynd hjólreiðamanna. Einnig vakti það athygli mína að í áströlsku rannsókninni kemur fram að íbúar í Sydney virðast líta á hjólreiðar sem eðlilega dægrastyttingu en samgönguhjólreiðar sem jaðarhegðun. Þá hefur ímynd hjólreiðamanna sem græningja neikvæð áhrif á ímynd hjólreiða almennt: „... they are seen as a kind of lefty, greeny universty educated kind of people who are into the evironment stuff. They are not good Aussies who want to drive their Commodore (Regular rider, male)“. Þá þótti mér einnig athyglisverð umræða um umferðareglurnar og að þær séu fyrst og fremst sniðnar að akandi umferð en ekki hjólandi. Þannig sé það hjólreiðamönnum „eðlilegt“ að brjót umferðareglurnar til að auðvelda sér sínar ferðir.
Greinin er áhugaverð og nytsamleg á marga vegu. Hún kynnir til sögunnar umferðarumhverfið sem í fljótubragði virðist líkt því sem gerist á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi. Viðhorf sem koma fram minna einnig um margt á það sem kemur fram í mínum viðtölum við hjólreiðamenn. Aðferðafræðin er einnig nánast sú sama. Hins vegar er það svo að ýmsar hagnýtar tölfræðilegar upplýsingar um hjólreiðar og hjólreiðamenn virðast vera aðgengilegri í Ástralíu, en á Íslandi. Sú spurning vaknaði hvort nauðsynlegt gæti verið að afla tölfræðilegra upplýsinga um hugmyndir almennings um hjólreiðar. Könnunin þyrfti ekki að vera viðamikil og úrtakið smátt. Samt sem áður gætu komið fram vísbendingar sem stutt geta rannsóknina eða varpað nýju ljósi á ýmsa þætti hennar.
Greinina má finna hér til hliðar --->>>


[1] Innviðir: Hjólastígar, hjólareinar, hjólavísar og önnur aðstað sérstaklega ætluð hjólreiðamönnum.

Monday, January 3, 2011

Less is more

Notkun nagladekkja meðal hjólreiðamanna hefur færst í vöxt á undanförnum árum. Sjálfur lét ég verða að því, í fyrsta skiptið, nú í haust að kaupa nagladekk og setja undir en aðeins að framan. Ástæða þess að ég setti naglana aðeins að framan er sú að þunginn og jafnvægið er meiri i fram dekkinu. Auk þess eru nagladekkin dýr eða á bilinu 7-10 þús. samkvæmt óformlegri könnun á netsíðum helstu hjólreiðaverslana á höfuðborgarsvæðinu. Ég verð hins vegar að viðurkenna það að þrátt fyrir að mér finnist leiðinlegra að hjóla með nagla þá eykst öryggið til muna.
En það eru fleiri möguleikar .Mér voru sendar myndir af hjólasíðu, Dutch bike Co. , þar sem farin er óhefðbundin og ódýr leið við að auka veggrip dekkja i snjó og hálka.Ég hef ekki reynslu af þessari lausn en strappar eru ódýrir og fáanlegir í öllum helstu byggingavöruverslunum.

Sunday, January 2, 2011

Bjarni í Bjarnabæ


Myndin hér að ofan er af Bjarna Helgasyni í Bjarnabæ.
Bjarni var vinur minn og við höfðum báðir ástríðu fyrir fyrir reiðhjólum og hjólreiðum. Bjarni hjólaði sinna ferða um Hafnarfjörð og ég veit ekki til þess að hann hafi tekið bílpróf. Hann lést snemma árs 2010,  91. árs að aldri. Hans er saknað á heimilinu enda tiður gestur á meðan hann hafði heilsu til.
Myndini lét hann taka af sér og "kínverska" hjólinu sínu á 75 ára afmælisdaginn sinn.
Ég tileinka Bjarna rannsóknina mína.


Saturday, January 1, 2011

Grein: Stálið er málið


Skömmu fyrir jól rakst ég á grein í British Medical Journal: Bicycle weight and commuting time: randomised trial.

Í greininni gerir höfundurinn, J. Groves (2010) grein fyrir tilraun eða rannsókn sem fólst í því að bera saman: gamlan stál-fák sem hann keypti notaðan, við nýtt carbon-hjól. Niðurstaða hann var sú að enginn munur var hraða og þægindum. Ef eitthvað, þá var gamla hjólið þægilegra í notkun :
A lighter bicycle did not lead to a detectable difference in commuting time. Cyclists may find it more cost effective to reduce their own weight rather than to purchase a lighter bicycle.
Greinin er gott innlegg í umræðuna um græjur og kostnað við hjólreiðar. Margir telja að það þurfi dýr og fullkomin hjól til að ferðast hratt og örugglega á milli staða. Niðurstöður Groves gefa annað til kynna. Hann gerir þó ekki lítið úr ánægjunni af því að kaupa nýtt hjól en bendir þó að raunveruleg þörf fyrir hágæða hjól sé lítil. Hann tengir svo þess þörf við aulýsingamennsku og markaðssetningu:
 Given these findings, why then do so many of us buy “performance” bicycles? Marketing must shoulder some of the responsibility.
Þrátt fyrir að greinin sé frekar stutt kom hann inn á áhugaverða punkta. Í yfirferð sinn sagði hann frá áformum breskra stjórnvalda sem miða að því að hvetja starfsmenn til að hjóla, til og frá vinnu (Cycle to work program), með það að markmiði að stuðla heilbrigðari ferðamáta og minnka mengun: 
„promote healthier journeys to work and reduce environmental pollution“.
Hann kom einnig inn á menningarlegt- eða félagsfræðilegt fyrirbæri sem hann kallar MAMIL (midle aged man in lycra). Þetta fyrirbæri hef ég áhuga á að kynna mér frekar og sjá hvort að það finnst hér á Íslandi. Það snerti umræður og hugmyndir um „græjuvæðingu“ í tengslum við hjólreiðar.