Stærðfræðingurinn og stjórnlagaþingmaðurinn Pawel Bartoszek skrifaði áhugaverða grein undir fyrirsögninni "Bíllinn í stofunni" á netmiðli Vísis um bílvæðinguna í Reykjavík og hvernig öðrum samgöngumátum er haldið niðri af bílistum. Hann fjallar enn fremur um það hvernig gangandi og hjóland beri nær alla ábyrgð á sjálfum sér fremur en ökumenn á öðrum vegfarendum. Þannig sé sjónum fyrst og fremst beint að því hvernig gangandi og hjólandi séu útbúnir í umferðinni heldur en því hvort bílvæðingin og forgangur bíla beri einhverja ábyrgð á slysum:
Því miður eru flestar stofnanir samfélagsins meðvirkar í þeim hugsunarhætti að miða allt út frá fílnum (bílnum). Gangandi bíða lengi eftir græna kallinum svo fílahjörðin þurfi ekki að nema staðar að óþörfu.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hjálmar séu óþarfir á hjóli. Um það votta margar rannsóknir þrátt fyrir öðru sé haldið fram. Hjálmaskylda er slæm hugmynd enda sýnir það sig að þar sem að hún er tekin upp verður fækkun á hjólreiðamönnum og það er ekki það sem borgaryfirvöld stefna að ef eitthvað er að marka Hjólreiðaáætlun borgarinnar. Það yrði í raun ólöglegt að hjóla án hjálms og þeir sem það gerðu yrðu brotlegir samkvæmt umferðalögum!!! Það sama ætti að gilda um vesti eða sjálflýsandi klæðnað. Slíkt getur aldrei orðið hjólreiðum til framdráttar og í raun setur hjólreiðamönnum ákveðnar skorður og letja fólk til að hjóla. Ég hef verið stoppaður af lögreglunni og hvattur til að klæðast slíku vesti. Lögreglumaðurinn var sjálfur á svörtum bíl og ég gat ekki séð að hann klæddist slíku vesti og því síður hjálmi. Varðandi ljósin þá þykir mér sjálfsagt mál að hjólreiðmenn hafi ljós á hjólum sínum; fyrir sjálfa sig og aðra. Um umferðaröryggi segir Pawel og orðar ágætlega:
Öll áherslan í umferðaröryggismálum ætti að vera á það að minnka þá hættu sem bílar valda fólki, og hvetja fólk til að spara óþarfar bílferðir og fara um eftir öðrum leiðum. Þess í stað dynur á okkur áróður um hve hættulegt sé að vera labbandi. Þeir klikkhausar sem það kjósa þurfa að merkja sig í bak og fyrir og klæðast hlífðarbúnaði. En umfram allt þurfa menn að passa sig. Á fílunum.
Frekari umfjöllun um efnið má finna RÚV í morgun.
No comments:
Post a Comment