Sunday, January 9, 2011

Samhjól

Þá er komið að fyrstu færslunni í hjóladagbókina. Í morgun fór ég í "samhjól" með hjólreiðafélaginu Bjarti í Hafnarfirði.

Það var gaman að renna upp að Ásvallalaug í myrkrinu í morgun og sjá öll rauðu ljósin (á hjólunum) loga fyrir framan innganginn. Þar voru saman komnir rúmlega 40 hjólreiðamenn, mest karlar, á aldrinum 30-50 ára (MAMIL). Fleiri áttu eftir að  bætast við og líklegast hefur fjöldin verið +50 þegar lagt var af stað. Fáeinar vaskar konur voru einnig í hópnum og þótti mér það góðs viti og taldi mér trú um að ég gæti í það minnsta haldið í við þær.

Hjólaður var um 33 km. hringur um Hafnarfjörð á ca. 2 tímum. Aðstæðar voru góðar: hæg norðan átt og -8 - -10 gráður. Leiðin var skemmtileg og ég naut þess að ellta þessa kalla uppi. Margir þeirra eru í góðu formi og kunna að hjóla. Sjálfur er ég ánægðastur með standið á sjálfum mér og hjólið mitt. Ég hélt í við fremstu menn lengstum og nýja hjólið virkaði vel. Að vísu var þarna pía sem að saltaði mig á einum leggnum og þar með má ég éta ofan í mig það sem ég lagði upp með; að halda í við stelpurnar.

Það sem eftir situr eru vangaveltur um fyrirbærið "samhjól". Hvað er það eiginlega. Er það annað orð yfir hjólatúr eða annað orð yfir hjólaæfingu? Kanski bara hvoru tveggja? Ég var auðsjáanlega ekki komin á hjólaæfingu en samt var tekið svo hraustlega á því, að þetta getur heldur ekki talist hjólatúr í hefðbundnum skilningi þess orðs.

Ég vil þakka þeim félögum í Bjarti fyrir frábæra hjólasamveru í morgun og ekki síður fyrir veitingarnar í lok ferðar - ekki síst orkudrykkurinn. Ég ætla að halda áfram að fylgjast með því hvað þeir félagar eru að bralla og langar aftur með þeim út að hjóla.

No comments:

Post a Comment