Stundum hittir þannig á að maður á einfaldlega ekkert erindi á hjólinu. Þá stendur það hreint og strokið og býður þess að vera dregið fram. Hjólið mitt hefur staðið í forstofunni síðan á föstudaginn. Þannig hefur háttað að ég hef þurft að nota bílinn til að erindast og útrétta um víðan völl. Stundum verður ekki hjá því komist að keyra.
Hér áður fyrr fylltist ég sektarkennd yfir því að hjóla ekki og fannst eins og ég væri að svíkja "málsstaðinn". Þrátt fyrir það er ég ekki öfgasinnaður hjólreiðamaður sem fyrirlít ökumenn. Ég keyri mikið. Ég rek stórt heimili; þrjú börn, tvö hunda, margréti og tvö ketti. Það er í mörg horn að líta, eilíft skutl og sendiferðir. '
Á einhverjum tímapunkti komst ég að því að þetta var ekki sektarkennd heldur söknuður og tilhlökkun. Ég saknaði þess að hjóla vegna þess að mér finnst það skemmtilegt og það veitir mér vellíðan að koma heim eftir góðan hjólatúr. Það er nefninlega þannig; að mér líður vel áður ég hjóla af því að ég hlakka til, mér líður vel á meðan ég hjóla af því að mér finnst það skemmtilegt og mér líður vel þegar ég er búin að hjóla vegna þess að þá streymir endorfín um líkamann og ég hef gert eitthvað fyrir sjálfan mig. Þannig eru hjólreiðar í mínum huga hvorki skylda eða hvöð, hugsjón eða sjálfskaparvíti, heldur einlæg ánægja og gleði.
No comments:
Post a Comment