Thursday, January 13, 2011

Hringtorg frá helvíti

Hér að ofan má sjá eitt versta hringtorg sem ég þarf að fara framhjá á hverjum degi: gatnamót Reykjanesbrautar, Flatahrauns og að einhverjum óskiljanlegum ástæðum Bæjarhrauns! Ólíkt mörgum öðrum hringtorgum þá eru þar fimm að- og fráreinar en oftast eru þær ekki fleiri en fjórar.  Þarna voru fyrir umferðarljós og oft hafa orðið þarna slæmir árekstrar og nokkur alvarleg slys. Síðan ráðist var í gerð hringtorgsins hefur hins vegar slysum fækkað til muna og mér er ekki kunnugt um alvarleg slys á fólki. Hringtorgið hefur s.s. haft tilætlaðan árangur; að stýra umferðinni, minka hraðann og fækka slysum. Það vill hins vegar svo til að ég er einn þeirra sem hef lent í slysi, á hjóli, á þessu hringtorgi. Ég lagði það í vana minn (ég er reyndar hættur því í dag) að hjóla á götunni og haga mér eins og bíll á þessu hringtorgi. Þá kom ég jafnan frá Flatahrauni, úr vestri, á leið í Krikann eða til RVK. Það hafði gengið ágætlega eða allt fram að 16. 11. síðastliðin að það var ekið á mig á þegar ég var á leið út úr torginu og inn á Bæjarhraun. Lítill sendiferðarbíll sem einnig var að koma af Flatahraun (úr austri) keyrði beint inn á torgið og á mig; hægði á sér en stoppaði ekki. Vissulega voru aðstæður erfiðar; dimmt og rigning, en ég var vel upplýstur, með ljós að framan og aftan. Mér varð ekki verulega meint af. Jafnaði mig á 2-3 vikum og hjólið slapp óskemmt. Hins vegar var stoltið sært og síðan hef ég reynt að sneiða hjá þessu torgi. En það er eitt og annað sem ég vil koma að varðandi þetta hringtorg:
-     Í fyrsta lagi er torgið staðsett við eitt mest notaða útivistarsvæði bæjarins, Kaplakrika, þar sem fara um þúsundir (flestir börn og unglingar) á degi hverjum.
-     Í öðru lagi þá eru 5 að- og fráreinar við torgið sem gerir það meira krefjandi að fara  um.
-     Og í þriðja lagi þá er það mér með öllu óskiljanlegt af hverju aðeins ein gangbraut (yfir Flatahraun, austan megin) er við Hringtorgið.
Þetta hringtorg er hið mesta ólán. Í raun og veru er skipulag fyrir þetta svæði slæmt og þarfnast mikillar endurskoðunar og úrbóta. Þarna virðist einfaldlega ekki gert ráð fyrir öðrum vegfarendum heldur en ökumönnum. Þrátt fyrir það er þarna fyrir útivistarsvæði sem börn og unglingar nota að mestu. Vissulega eru ein undirgöng, undir Reykjanesbrautina, skammt frá torginu í norðri. En þau eru ekki gallalaus og til að nota þau þarf að leggja lykkju á leið sína. Þetta á í raun við um allt þetta svæði sem áður var fyrst og fremst iðnaðarsvæði en í dag er að breytast í: léttiðnaðar-, verslunar- og þjónustuhverfi. Ætlir þú að ferðast þar um gangandi þá eða hjólandi ertu á afar fáum stöðum „óhultur“ eða á öruggum stað.
Ég á örugglega eftir að taka þetta svæði frekar fyrir síðar enda fer ég þarna um daglega; stundum á bíl, stundum á hjóli og stundum gangandi.

4 comments:

  1. Þetta hringtorg er ekki vel hannað og ef ég man rétt voru gerðar athugasemdir við umferðaröryggi í því þegar verið að var að hanna það aðallega út af Bæjarhraunsleggnum. Það er svo kröpp beygjan inn á Bæjarhraunið að þeir sem koma inn í torgið frá Flatahrauni úr austri keyra inn í þá (bíla og hjól) sem eru að fara inn/út úr Bæjarhrauninu.

    Ég gerði eitt sinn tilraun til að ganga með barnavagn frá Setbergshverfi út í Fjarðarkaup framhjá krikanum og þessu svæði og maður er bara gangandi á bílastæðum og götum alla leiðina.

    Það þyrfti að gera samgönguáætlun fyrir þetta svæði í heild seinni með fókus á alla samgöngumáta.

    Kveðja
    Lilja Karlsdóttir

    ReplyDelete
  2. Ég er hjartanlega sammála þér Lilja. Það er annað athyglisvert á þessum slóðum. Á mots við KFC er gangbraut yfir Reykjanesbrautina í átt að Bæjarhrauni. Þar tekur hins vegar kjarrgróður við þér og engar gangbrautir??!?!?!?!?!

    ReplyDelete
  3. Sæll Davið

    Ég vill byrja á að hrósa þér fyrir áhugaverða síðu sem þú ert lagður af stað með.

    Þannig vill til að ég hef farið daglega yfir þessa gangbraut á hjóli sl ár. Mín reynsla er sú að þetta er einn af fáum stöðum þar sem ég hef nánast getað gengið að því vísu að stoppað sé fyrir mér.

    En það sem tekur við þegar komið er yfir götuna og inn á bæjarhraunið er ofvaxið mínum skilningi. Þar er enginn sem ekki er á bíl velkominn. Hafnarfjarðarbær hefur af miklu örlæti lagt þar gangstíg sem er 1/10 af lengd götunnar og að sjálfsögðu hefur eitthver verslunareigandi séð sig knúinn til að velja stærðarinnar blómakeri stað þar. Þarna er gott tækifæri fyrir bæinn að gera betur. Gatan er vel til þess fallin að merkja á hana hjólaakrein öllum hjólandi til aukis öryggia og ánægju.

    kv
    Árni

    ReplyDelete
  4. Góður pistill hjá þér Davíð. Það er gríðarlega margt sem betur má fara í Hafnarfirði og margt hægt að gera án mikils tilkostnaðar. Það virðist vera skortur á heildarsýn í skipulagsmálum í Hafnarfirði. Ég óttast samt að eins og svo oft áður að það gerir enginn neitt fyrr en einhver deyr eða stórslasast.

    ReplyDelete