Saturday, January 22, 2011

Sjónarhóll

Þegar maður hjólar um borgina upplifir maður borgarumhverfið á annan hátt heldur en í bíl og hversdagslegir hlutir öðlast nýja merkingu. Skilningarvitunum eru lítil takmörk sett á hjóli en afar takmörkuð í bíl. Þannig er hjólreiðamaðurinn í beinum tengslum við náttúruna í borginni en ökumaðurinn einangraður frá umhverfinu. Eftirfarandi eru þrjú dæmi um það sem hjólreiðamaðurinn sér en ökumaðurinn ekki.

Í Hafnarfirði, líkt og í öðrum sveitarfélögum á hbs, hefur verið lagt í gerð á s.k. strandstíg eða "bláum" stíg. Blái stígurinn er hluti af göngu- og útivistarstígakerfi hbs sem sveitarfélögin hafa sameinast um að framkvæma við strandlengjuna. Framkvæmdum miðar ágætlega (nema í Arnarnesi og á Álftarnesi) og ég leyfi mér fullyrða að þessir stígar eru einhver mest notuðu útivistarsvæði í borginni. Fyrir fáeinum árum réðst Hafnarfjarðarbær í framkvæmdir við sinn hluta og afraksturinn er bar nokkuð góður. Íbúar hafa notfært sér þessa fallegu leið og undantekningalaust er þar fólk á gangi eða á hjóli. Hjólandi og gangandi eiga reyndar ekki alltaf samleið og því eru hjólreiðamenn og gangandi aðgreindir með óslitinni línu. Á einum stað, á Herjólsgötunni, við hraðhindrun og gangbraut er að finna sérstakt fyrirbæri sem einungis þeir sem eru á hjóli sjá. Á nákvæmlega miðjum þess hluta sem ætlaður er hjólreiðamönnum hefur verið komið fyrir skilti. 


Annað áhugavert fyrirbæri er að finna í Sjálandinu í Garðarbæ. Þar hafa bæjaryfirvöld lagt sig fram um að leggja skemmtilegan og greiðfæran stíg um hverfið sem nýtist gangandi og hjólandi. Þeir hafa reyndar ekki látið verða af því að aðgreina vegfarendur en stigið skrefið lengra að öðru leyti. Þar er að finna tvö hringtorg, með stuttu millibili, sem hlýtur að vera ætlað að auka umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Á öðru þeirra hefur svo verið komið fyrir grjóti í óljósum tilgangi. Í myrkri er þessi hnullungur nánast ósýnilegur og ég hef ákveðnar efasemdir um tilverurétt hans.


Steinsnar frá hringtorginu eru hins vegar skemmtilegan gjörning að finna. Textabrot hefur verið málað á stíginn. Textarnir eru, að ég held, samhengislausir en lífga upp umhverfið og vekja upp spurningar. Ég hef mjög gaman af þessu og tel að þetta sé skemmtilegt dæmi um það hvernig hægt er að færa menninguna út á göturnar, í bókstaflegri merkingu


No comments:

Post a Comment