Thursday, April 26, 2012

"klassaðu" gamla settið

Það fylgir vorinu að nýjar vörur fylla hjólreiðaverslanir, og ekki að ósekju. Mörgum langar að hjóla á sumrin og jafnvel að nota hjólið í samgöngum. Ég er oft spurður af fólki sem hyggst byrja að hjóla í skólann eða vinnuna: hvernig hjól á ég að fá mér og hvernig útbúnað á ég að kaupa? Alltaf svara ég á sama hátt: áttu ekki hjól í skúrnum eða kjallaranum og áttu ekki góðan flíspeysu og regnjakka? Oftar en ekki svarið: Já, en hjólið er orðið svo gamalt og bilað ...og þarf maður ekki sérstakan útbúnað, fatnað osvfrv.? Þá er næsta spurning: er ekki hægt að gera við hjólið og til hvers þarftu sérstakan útbúnað?

Á flestum heimilum eru til gömul hjól sem ýmist eru í lagi eða þarfnast smávægilegra lagfæringa svo  að hægt sé að nota þau. Það að engin ástæða til að kaupa nýtt hjól til að byrja að hjóla. Hjól eru þeirrar náttúru gædd að það er tiltölulega auðvelt og ódýrt að gera við þau. Og varðandi útbúnaðinn, þá er það mín reynsla að Íslendingar kunna að klæða sig fyrir veðri og vindum og að á flestum heimilum er til góðir stakkar eða úlpur.

Því segi ég við þá sem vilja prófa að nota reiðhjól í samgöngum að það sé mjög einfalt. Gerðu við eða láttu gera við gamla hjólið og kauptu þér góða húfu og fingravettlinga. Það þarf ekki að kosta mikið og er alls ekki mikil fyrirhöfn að byrja að hjóla. Nú, fyrir þá sem ekki eiga gamalt hjól eða dauðlangar að kaupa sér nýtt þá skil ég það vel. Ég á sjálfur mínar sælustu stundir á netinu að skoða ný hjól eða á hjólreiðaverslunum þar sem lyktin af málmum og gúmmí fyllir vitin.

Monday, April 23, 2012

999 kílómetrar


999 km. þann 22. apríl 2012 við Hringbrauti (HG2012)
.999 kílómetrar frá því í nóvember í fyrra. það gera um 2000-2500 km. á ári. Nokkuð, en ekki mikið miðað við undanfarin ár. Brá á það ráð að sitja í hjá nágranna mínum og notast við strætó yfir myrkustu mánuðina. Annars hef ég ekki verið upptekin af því hversu hratt eða mikið ég hjóla. En mælirinn er hvetjandi og vekur oft upp skemmtilega pælingar. Heildarvegalengdin veitir góða tilfinningu fyrir viðhaldi. Hefði viljað hafa heildarvegalengdina frá upphafi þegar ég réðst í ótímabæra (að mínu mati) viðgerð á sveigarsettinu eftir aðeins um 18 mánuði. Þá er gott að miða við 2000 km. sem líftíma keðjunnar en ég skipti um keðju nýlega. Miðað við ástandið á henni þá var það tímabært og ég vona að ég hafi ekki slitið kasettunni illa með því að draga skiptin.

Sunday, April 22, 2012

Verst og best í miðbænum

Lundasjoppa á horni Skólavörðustíg og Berstaðastrætis (HG2012)
Miðbærinn í Reykjavík hefur óumdeilanlega sjarma þótt margt megi bæta til að gera hann að enn betri íverustað. Með fjölgun ferðamanna hefur bærinn tekið breytingum til hins betra og um leið fengið alþjóðlegri blæ. Kaupmenn og veitingamenn hafa fært þjónustu sína út á göturnar og um leið gert umhverfið meira aðlaðandi til að dvelja í. Fjölgun ferðamanna hefur þannig haft jákvæð áhrif á umhverfið í miðbænum með því að augða götulífið. Einn er þó galli á gjöf Njarðar. Þegar svo margir róa á sömu mið verður útkoman einsleit. Lundsjoppur hafa sprottið upp eins og gorkúlur um víðan völl. Ekki þarf lengur að ganga nema í mesta lagi 100 metra til að finna næstu minjagripaverslun. Gott og vel, en fyrir mitt leiti þá kastar þessi þróun rýrð á yfirbragð miðbæjarins og minnir um margt á minjagripaverslanirnar á Kúbu sem allar eru eins og allar selja sömu vörur.

Fótbolti í Austurstræti (HG2012)
Það besta sem gert hefur verið í miðbænum, að mínu mati, er lokun Austurstrætis. Ég settist í 15 mín. á íþróttabarinn Bjarna Fel í dag og sá dramatískar lokamínúturnar í jafntefli Man Utd og Everton "Toffies" á Old Trafford. Sannarlega skemmtun enda tvö mörk alveg undir lokin. Það sem vakti þó mesta athygli mína voru strákar að leika sér með bolta fyrir utan gluggann. Eitthvað sem hefði verið óhugsandi ef strætið væri opið fyrir bílaumfer. Að sjá þá og allt fólkið sem reikar stefnulaust um strætið en styttir sér stundir með leik sannfærði mig endanlega um ágæti lokunarinnar.

Saturday, April 21, 2012

Gúrkutíð

Það er lítið um að vera á daglegum leiðum mínum um þessar mundir. Vissulega er sumarið komið en að öðru leiti er fátt markvert. Nema kannski í Garðabænum en þar er verið að leggja nýtt gervigras á aðalvöllunni og æfingasvæðið. Það er mér reyndar hulin ráðgáta að lið eins og Stjarna, sem virðist vera að festa sig í sessi sem alvöru lið, skuli veðja á gervigras fyrir aðalvöllinn. Fótbolti er íþrótt sem að á að spila á grasi en ekki gervigrasi og leikmenn vilja spila á grasi. Held að Stjarnan sé að veðja á rangan hest.

Stjörnuvöllurinn í Garðabæ (HG2012)


Friday, April 20, 2012

Í vanskilum

Mongoose al (HG2012)
Þetta Mongoose fjallahjól fannst í reiðuleysi á Suðurgötunni í gærkvöldi. Fátt leggst jafnt þungt á sálina á mér og umkomulaus reiðhjól svo að ég tók það með mér og . Það er augljóst að einhverjum hefur þótt vænt um hjólið og því er vel við haldið. Látið í ykkur heyra ef þið kannist við gripinn.

Friday, April 13, 2012

Af hnökkum


Það mætti halda að þetta virðulega fræðiblogg væri að breytast í fjölskyldualbúm. Svo er þó ekki. Allar eru myndirnar teknar í hjólatúrum (og hjólatúrar eru sannarlega fræðilegir), oftar en ekki í hesthúsið hans afa Stebba þar sem hann heldur til ásamt tengdaforeldrum mínum. Fjölskyldan nær vel saman í hnakki, hvort heldur sem á hjóli eða hestbaki.

Það er margt líkt með því að sitja á hjóli og á hesti, fyrir utan þá augljósu staðreynd að hjólið er lífvana samsuða málma en hestar sprelllifandi og af ætt spendýra. Útivistin er sú sama og ferðhraðinn álíka. Og svo eru það hnakkarnir, hjólreiðamenn og hestamenn sitja í hnakki. Að vísu er hestahnakkur mun dýrari heldur en hnakkur á hjól. Því fékk ég að kynnast þegar keyptur var hnakkur fyrir hestastelpuna í fjölskyldunni af því tilefni að hún staðfestir skýrnina á næstu dögum. Sjálfur þarf ég að skipta um hnakk á hjólinu mínu enda sá gamli farin að láta verulega á sjá. Mér reiknast til að sómasamlegur hnakkur á hjól kosti um 1% af sómasamlegum hnakki á hest. Við vorum þó sammála feðginin um mikilvægi góðra hnakka fyrir rass, læri og bak en ekki síst ánægjuna af því að sitja í nýjum og hnakki.

Myndbandið hér að ofan var tekið á um Páskana við hesthúsið hans afa í Hlíðarþúfum. Þar má sjá þær Björk (14) og Rósu (5) koma skeiðandi í hlað á Júpiter og Hrappi. Fyrir hestaáhugafólk þá hef ég ekki hugmynd um hvaðan þeir eru ættaðir. Hitt veit ég og get stafest að stúlkurnar eru dætur mínar, ættaður úr Bjarnabæ.

Friday, April 6, 2012

Með Breka og Flosa


Félagarnir Breki og Flosi við leikskólann Hörðuvöllum (HG2012)
Víííííí´(HG2012)


Breki í fjörunni við Herjólfsgötu. Vildi að hún væri sendin en ekki stórgrýtt (HG2012)

Wednesday, April 4, 2012

Kortaveisla í boði 220

Göngu- og hjólaleiðakort Hafnarfjarðarbæjar (www.hafnarfjordur.is)
Hér er að finna finna safn göngu-, hjóla- og skokkleiða í Hafnarfirði. Kortið hér að ofan sýnir hjólaleiðakortið sem, þegar smellt er á tengilinn, er hægt að stækka og skoða nánar. Kortið er ekki gallalaust en það sýnir ágætlega hversu auðvellt og gott er að hjóla í bænum. Það er nefnilega útbreiddur misskilningur að það sé ekki gott að hjóla í Hafnarfirði vegna þess að þar skorti innviði líkt og víðar á höfuðborgarsvæðinu. Staðreyndin er hins vegar sú að allir innviðir eru til staðar. Í bænum eru götur, göngustígar og gangstéttir. Hjólið er þess eðlis að það er heimilt að hjóla á nánast hvar sem er svo lengi sem að ekki verði eignaspjöll eða öðrum stefnt í hættu. Um það gildir heilbrigð skynsemi.

Annars þótti mér skokkleiðakortið nokkuð gott og sannarlega vel til þess fallið að hvetja til skokks (ekki að það þurfi um þessar mundir) og gæti reynst sem hugmyndabanki fyrir einhverja. Önnur kort sýna gamlar og klassískar gönguleiðir um bæinn og upplandið.

Þegar allt kemur til alls eru kortin fín og aðgengileg á einum stað. Ég hvet fólk til að kynna sér kortin og nota þau. Fólk kynnist nýjum leiðum, hjólandi eða á fæti, og fær dýpri skilning á landslaginu og búsetunni í bænum og upplandinu.

Monday, April 2, 2012

Beðið

"Uppgerðingur" við það sem eitt sinni var Félagasstofnun stúdenta (HG2012)

Sennilega það sem kallast "fixie" við Öskju (HG2012)