Thursday, April 26, 2012

"klassaðu" gamla settið

Það fylgir vorinu að nýjar vörur fylla hjólreiðaverslanir, og ekki að ósekju. Mörgum langar að hjóla á sumrin og jafnvel að nota hjólið í samgöngum. Ég er oft spurður af fólki sem hyggst byrja að hjóla í skólann eða vinnuna: hvernig hjól á ég að fá mér og hvernig útbúnað á ég að kaupa? Alltaf svara ég á sama hátt: áttu ekki hjól í skúrnum eða kjallaranum og áttu ekki góðan flíspeysu og regnjakka? Oftar en ekki svarið: Já, en hjólið er orðið svo gamalt og bilað ...og þarf maður ekki sérstakan útbúnað, fatnað osvfrv.? Þá er næsta spurning: er ekki hægt að gera við hjólið og til hvers þarftu sérstakan útbúnað?

Á flestum heimilum eru til gömul hjól sem ýmist eru í lagi eða þarfnast smávægilegra lagfæringa svo  að hægt sé að nota þau. Það að engin ástæða til að kaupa nýtt hjól til að byrja að hjóla. Hjól eru þeirrar náttúru gædd að það er tiltölulega auðvelt og ódýrt að gera við þau. Og varðandi útbúnaðinn, þá er það mín reynsla að Íslendingar kunna að klæða sig fyrir veðri og vindum og að á flestum heimilum er til góðir stakkar eða úlpur.

Því segi ég við þá sem vilja prófa að nota reiðhjól í samgöngum að það sé mjög einfalt. Gerðu við eða láttu gera við gamla hjólið og kauptu þér góða húfu og fingravettlinga. Það þarf ekki að kosta mikið og er alls ekki mikil fyrirhöfn að byrja að hjóla. Nú, fyrir þá sem ekki eiga gamalt hjól eða dauðlangar að kaupa sér nýtt þá skil ég það vel. Ég á sjálfur mínar sælustu stundir á netinu að skoða ný hjól eða á hjólreiðaverslunum þar sem lyktin af málmum og gúmmí fyllir vitin.

No comments:

Post a Comment