Friday, March 4, 2011

Fínn fundur í gær - en hvað svo?

Í Fossvogi. Ein helsta samgönguæð þeirra sem hjóla í borginni (HG2011)

Í gær fór fram fundur á vegum starfshóps um bættar hjólreðasamgöngur í Hafnarfirði í Lækjarskóla. Tilgangur fundarins var að safna saman hugmyndum um hvað megi betur fara í bænum varðandi hjólreiðar sem samgöngukost. Tæplega 40 manns sóttu fundinn og margar góðar ábendingar komu fram. Það var létt yfir fólki og ljóst mörgum þótt gott að geta rætt málin við meðlimi starfshópsins.

En hvað svo?

Fundur sem þessi var góðra gjalda verður og sem slíkur þótti mér hann takast vel. Hins vegar skiptir meira meira máli að fylgja honum eftir og vinna úr þeim upplýsingum sem komu fram. Nú mun starfshópurinn leggjast yfir niðurstöðurnar og skila af sér skýrslu. Hvað gerist svo í framhaldinu er háð raunverulegum vilja bæjaryfirvalda til bæta aðstæður fyrir hjólreiðamenn og um leið að auka lífsgæði íbúanna í bænum.

Það er mín skoðun að ef að hjólreiðar eiga að verða raunhæfur samgöngukostur í HF þá þarf ALLT skipulag bæjarins að miða að því. Ráðast þarf í endurskoðun á gildandi skipulagi og ígrunda vel hvar og hvernig verði komið við innviðum sem miða að því að bæta aðstæður til hjólreiða. Þá verða nýframkvæmdir einnig að taka mið af því sama og þá er mikilvægt að bærinn eigi í góðu upplýstu samstarfi við Vegagerðina þegar það á við.

Mikilvægast af öllu er að átta sig á því að með bættum innviðum á fjölgar þeim sem kjósa að hjóla leiðar sinnar - rannsóknir staðfesta það. Innviðir verða að vera þannig úr garði gerðir að þeir séu vel útfærðir og geri hjólreiðamanninum kleift að ferðast á einfaldan og öruggan hátt á milli bæjarhluta. Rannsóknir sýna einnig að í þeim borgum sem mestur árangur hefur náðst og þar sem lífsgæði íbúa eru talin hvað mest þar er einfaldast og fljótlegast fyrir íbúana að ferðast um á hjóli stóran hluta sinna daglegu ferða.

*Fæstir þeirra sem nota reiðhjól sem samgöngutæki gera það til að stemma stigum við losun gróðurhúsalofttegunda eða vegna lýðheilsusjónarmiða. Fæstir þeirra sem nota reiðhjól sem samgöngutæki gera það eingöngu vegna þess að það er ódýrara heldur en að keyra bíl.

*Fólk hjólar vegna þess að það er einfaldasta leiðin til að komast á milli staða.

Þannig er mikilvægt að blanda ekki saman hjólreiðum og lýðheilsumálum eða umhverfismálum. Hjólreiðar eru skipulagsmál og samgöngumál og með þeim formerkjum þarf að taka á málefnum hjólreiðamanna. Þessu verða bæjaryfirvöld í HF að gera sér grein fyrir ef þeim er raunverulega alvara með því að gera hjólreiðar að raunhæfum samgöngukosti í bænum.

No comments:

Post a Comment