Monday, September 19, 2011

Niðurstöðufundur

Á vormánuðum var haldin opin fundur meðal bæjarbúa í Hafnarfirði varðandi hjólreiðar í bænum. Tilgangur fundarins var að afla gagna fyrir nefnd sem skipuð var um haustið og hafði það að markmiði að mót stefnu fyrir bæinn í málefnum hjólreiðamann. Nú hefur nefndin lokið störfum og kynnir skýrsluna

Fjarðarpósturinn 15. sept. 2011


Hér með er skorað á alla sem málið varðar að mæta á fundinn og kynna sér niðurstöðurnar

Tuesday, September 13, 2011

Meira af bílastæðum og sóun á landi í Krikanum!

Formaður knattspyrnudeildar FH var býsna harðorður á heimasíðu félagsins varðandi bílastæðvandamál við Kaplakrika. Þar bendir hann réttilega á að þegar stórviðburðir fara fram á svæðinu annar bílastæðið ekki þeim fjölda sem heimsækir Krikann.
Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að í Kaplakrika eigi ekki að vera bílastæði. Ekki af þeim ástæðum að ég sé e-ð sérstaklega á móti bílum eða stæðum heldur vegna þess að þar er einfaldlega ekki pláss. Nú er svo komið að knattspyrnudeildin hefur ekki nægjanlegt æfingasvæði og þá þykir mér sem að allt of mikið svæði fari undir bíla. Vissulega kemur það sér vel þegar fram fara stórviðburðir, eins og áður getur, en það eru aðeins fáeinir dagar á ári. Miðað við hvað þrengir að Krikanum þá hafa FH-ingar ekki efni á að fórna svo stórum hluta af krikanum undir bílastæði.


Bílastæði í Krikanum

Ég er þeirrar skoðunar bílastæðið við kaplakrika ætti að fjarlægja og hefjast handa við að byggja upp æfingsvæði fyrir knattspyrnuiðkendur þar í staðinn. Aðeins verði stæði fyrir örfáa bíla og leið heim að húsunum til að færa aðföng og til að koma að sjúkrabílum, rútum og slökkvuliðsbílum. Bílastæðið verði hins vegar flutt út fyrir Krikann, norðan megin, á auða lóð sem þar er.
Svo er alltaf hægt að labba eða hjóla á leiki eða æfingar!

Football & Bicycles in Copenhagen from Copenhagenize on Vimeo.

Wednesday, August 17, 2011

Meðfylgjandi myndir sýna lítin hluta af gríðarlegum bílastæðum við HÍ og HR. Hér í HÍ hefur þegar verið tekin upp gjaldtaka við "skeifuna" fyrir fram aðalbygginguna en mér er ekki kunnugt um að slíkt hafi verið gert við HR. Sjálfur er ég gríðarlega ánægður með þessa gjaldtöku enda finn ég alltaf stæði þar þegar ég þarf á að halda og þarf ekki að ganga jafn langt til að sinna erindum mínum þegar ég kem á bíl. En þessar gjaldtökur hafa vakið viðbrögð meðal stúdenta og frekari hugmyndir um gjaldtöku eru mjög umdeildar.
(Bílastæði fyrir framan HÍ HG2011)
(Bílastæði við HR HG2011)
Camebridge háskóli er ein elsta og virtasta menntastofnun í heiminum og þar á bæ eru stjórnendur einnig að glíma við sama vanda og hér á land - of fá bílastæði og of mikið pláss og kostnaður við gerð og rekstur bílastæða. Þeirra ráð eru þau að banna nemum að koma á bílum skólann. Svo einfallt er það. Ein íhaldsamasta stofnun veraldar hefur tekið þá frammúrstefnulegu ákvörðun að hvetja nemendur til að notfæra sér reiðhjól og almenningssamgöngur fremur en að keyra upp að dyrum á eigin bílum (undantekningar eru gerðar fyrir fatlaða). Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og Cambridge borg er í dag ein þeirra borga sem hefur náð hvað mestum árangri við að stemma stigum við bílvæðingunni.

Það sama verður ekki sagt um fjórar af stærstu borgunum í Florida.

Tuesday, August 16, 2011

Skemmtileg þróun við Nauthólsveg

Það hefur heillað mig hvernig hjólreiðamenn fara sínar eigin leiðir óháð aðstöðu fyrir hjólreiðafólk í borginni. Þannig hjóla hjólreiðamenn á móti einstefnu, á gangstéttum, á götum, göngustígum og yfir grasbala svo dæmi séu tekin. Allt eftir því hvaða leið þeir eru að fara og hvað reynist greiðfærast.
Myndin hér að neðan var tekin fyrir tæpu ári síðan og sýnir hvernig hjólreiðamenn hafa markað sín spor í jörðina við Nauthólsveg


(Slóðamyndun við Nauthólsveg HG2010)
 Á leið minni í Öskju í morgun rak ég svo augun í nýlega framkvæmd á sama stað. Svo virðist sem að samgönguyfirvöld í borginn sé með á nótunum og bregðast við á viðeigandi hátt. Þar hefur nú verið byggt upp undirlag fyrir samgöngustíg, væntanlega ætlaðan gangandi-og hjólandi vegfarendum, sem síðar verður malbikað.

(Framkvæmdir við Nauthólsveg HG2011)
Ef að samgönguyfirvöld er næm fyrir þörfum gangandi- og hjólandi vegfarenda geta þessir aðilar þróað samgöngnet borgarinnar í sameingu byggða reynslu þeirra sem nota. Oft hefur manni einmitt fundist sem að sú reynsla sem þegar er til staðar sé virt að vettugi við hönnun borgarumhverfisins. Vel gert!

Friday, August 12, 2011

Aftur að troðmyllunni

Reglulegar ferðir úr BB í HÍ eru hafnar að nýju eftir sumarfrí. Þrátt fyrir að hafa hjólað í allt sumar var ég lítið eitt styrður eftir fyrstu skiptin. Fæturnir eru þó enn eins og nýir enda hafa þeir aldrei verið vandamál eins og sjá má á myndinni hér að neðan.
(HG2011)
Á leið minni um Kópavoginn hef ég undanfarið ítrekað rekist á mann og hund við undirgöngin við hinn sk. "skítalæk". Um er að ræða eldri, virðulegan mann og þann hraustlegasta rottweiler sem ég hef augum litið. Ég stóðst ekki mátið og tók mynd af þeim félögum með samþykki þess sem hafði orð fyrir þeim. Þrátt fyrir illúðlegt útlit og vafasamt orðspor á tímum þar sem að hundar sæta fordómum þá reyndist strákurinn (sem ég man reyndar ekki hvað heitir) kelinn og vinalegur. Ég efast ekki um að eigandinn sé það líka ef að á reynir.

(HG2011)
Sólin er blessunarlega farin að lækka en ég hef aldrei verið barn sumarsólstöðunnar. Kvöld- og náttmyrkrið er mér fremur að skapi og haustið er sá tími ársins þegar ég er í hvað mestri sátt við náttúruna. Ég býð haustið og um leið vetrarhjólreiðarnar hjartanlega velkomnar að nýju. Ég get ekki sagt að ég hafi saknað þess að hjóla í snjó og slyddu en árstíðarnar skyldi bjóða velkomnar og örlögum sínum um leið.

Saturday, May 28, 2011

Skilaboð

Við Skúlagötuna er blásið til veislu ...

HG 2011
... og við Barónsstíginn er einhverjum umhugað um sjávarútvegskerfið og þróun og horfur í atvinnumálum þjóðarinnar og byggðaþróun.

HG 2011

Thursday, May 26, 2011

Reykjavík chainsaw massacre

Í borginni stendur yfir umfangsmikið skógarhögg. Á hverjum degi eru stór tré felld miskunarlaust með það að markmiði að "fá útsýni" eða "opna garðinn fyrir sólinni". Það eru ekki mörg merkileg tré í borginni en saman mynda þau heild sem glæða mannlífið og gera okkur íbúunum kleift að færa daglegt líf út undir beran himinn.

Fjölnisvegur (HG 2011)
 "Útsýni" og "sól" er það sem Reykvíkingar sækjast eftir í sínum görðum. Á sama tíma hefur skipulag borgarinnar miðað að því að reysa Skuggahverfi.

Skuggahverfið (HG 2011)
 Það er með öllu óskiljanlegt hvernig skipulagsyfirvöld í Reykjavík gátu fundið það út að þetta væri líklegt til að auka lífsgæði Reykvíkinga. Ef það hefur þá verið haft að markmiði.

Hvernig væri nú að láta af þessu skógarhöggi og njóta þess að loksins sé að verða lífvænlegt í borginni. Sum þeirra trjá sem nú sæta ofsóknum hafa staðið lengur en flestir ábúendur í borginni. Beinið sjónum ykkar heldur að skipulagsfræðingunum og byggingaverkkunum sem vilja reisa sér minnisvarða um borgina. Ég er þó ekki að mælast til að þeir séu sagaðir niður.

Wednesday, May 4, 2011

Hafnarfjarðarbær er til í slaginn!

Fréttablaðið 4. maí 2011
Hún Margrét mín er með grein í Fréttablaðinu í dag. Hún er einn þeirra stjórnmálamanna sem hefur trú reiðhjólum sem samgöngutækjum. Það er mín tilfinning að þeim fari fjölgandi og vonandi verða þeir áberandi í baráttunni fyrir bættum aðstæðum til hjólreiða á Íslandi. Vel gert Magga Gauja.

Tuesday, May 3, 2011

Hún lifir góðu lífi

Af vef LHM þann 5. maí 2011
Rakst á þessa frétt á vef LHM í dag. Það var gaman að sjá dustað rykið af BS-verkefninu mínu. Það gefur þeim sem nú vinna baki brotnu að sínu lokaverkefni von um að það hafi einhverja þýðingu og verði jafnvel lesið af einhverjum öðrum en leiðbeinendum þeirra.

BS-verkefnið er vissulega barn síns tíma þótt ekki sé það nema árs gamalt. En gögnin og niðurstöðurnar eru enn mikilvæg og nýtast mér vel við meistararannsóknina mína um nokkurn vegin sama efni. Að vísu hefur það verkefni (sem betur fer) tekið skemmtilega beygju og áherslan er nú mun meiri á innviði og aðstæður til handa hjólreiðafólki. Í samvinnu við leiðbeinanda minn höfum við nú ráðist í það viðamikla verkefni að staðfæra aðferð til að meta gæði hjólaleiða meið tilliti til: greiðfærni, öryggis og umhverfis.

Vonandi verð ég ekki í jafn mikilli tímaþröng þegar kemur að skilum og þegar ég skilaði BS-verkefninu. Vonandi hef ég lært af RT viðhafa öguð vinnubrögð og vinna jafnt og þétt að rannsókninni. Nú eru 11 mánuðir til stefnu og rétt að fara að bretta upp ermar.


Monday, May 2, 2011

Wheelie bar



Getur einhver sagt mér hvar er hægt að kaupa WHAM-O WHEELIE BAR? Hún Margrét mín er að leita sér að svona græju.

Sunday, May 1, 2011

1. maí 2011

Mynd: amsterdamize
Það er snjór og krapi á götum borgarinnar í dag. Á sama tíma er mið-Evrópa að vakna til lífsins eftir veturinn. Myndin hér að ofan er tekin í Amsterdam og fengin að láni af einni af þessum fjölmörgu -ize síðum (copenhagenize, amsterdamize, portlandize o.fl.). Vonandi er þess ekki lengi að bíða að sumarið geri einnig vart við sig hér á Íslandi.

Það er e-ð við myndina sem mér finnst í senn heillandi og fallegt. Hugsanlega er það þetta afslappað og eðlilega yfirbragð á fjölskyldunni á hjólinu.

Tuesday, April 26, 2011

Frumskógarlögmálið



Í nóvember árið 1859 gaf Charles Darwin út bók sína um uppruna tegundanna "Origin og the species". Upp úr þeirr bók er sprottin hugmyndin um að þeir hæfustu muni lifa af. Síðan þá eru liðin um 150 ár og líklega hefur engin hugmyndafræði fengið annan eins meðbyr og "Frumskógarlögmálið". Það þykir í raun ekkert eðlilegra en að þeir stóru éti þá litlu og fitni í samræmi við það. Þetta er okkur kennt, leynt og ljóst, af foreldrum okkar og samfélaginu. Við höfum upphafið kynstofna og við höfum mismunað kynjunum. Við höfum upphafið peninga og við höfum upphafið tæknina. Það höfum við gert á kostnað annarra gilda eins og samúðar og bræðralags.

Ég vil efast um tæknihyggjuna og ofurtrú á framfarir. Hvað þurfum við meira til að geta lifað góðu lífi? Þurfum við meiri peninga og stærri hús? Þurfum við stærri og hraðskreiðari bíla? Veraldleg gæði eru sjaldan fengin nema á kostnað annarra.

Ég er ekki viss um að Darwin hafi haft þetta í huga þegar hann gaf út sína merkustu bók. Það er stór munur á því að nærast, og að hlaða á sig spiki á kostnað þeirra sem að ekki komast undan.

Spyrjiði bara hlébarðann!

Monday, April 25, 2011

Hætturnar leynast víða


(Pressan 25. apríl 2011)
 Hvað finnst fólki um að skylda ferðamenn til að klæðast hjálmi við pálmatré?

24. apríl 2011

Haframjöl hjólreiðamannsins (HG2011)

Fegðinin Rósa og Davíð á leið í Risann að leika sér (HG2011)

Tuesday, April 19, 2011

Hjálmar


Mynd: cycle chic
Fyrir fáeinum dögum vatt sér upp að mér kona og sagði við mig í óspurðum fréttum: "þú átt að vera með hjálm" og bætti svo við "af hverju ertu ekki með hjálm?". Ég gerði mig líklegan til að svara, fyrir kurteisis sakir, þó ég reyni að forðast þessa umræðu. En hún gaf mér ekki færi á að svara og hélt yfir mér stutta tölu um ábyrgðarleysi frá manni sem væri að "agentera" fyrir hjólreiðum.

Mig langar að gera grein fyrir máli mínu eitt skipti fyrir öll.

Í fyrsta lagi þá er ekki skylda að nota hjálm á Íslandi og fullorðnu fólki er frjálst að hjóla með eða án hjálms. Og í öðru lagi þá hjóla ég stundum með hjálm og hvet börnin mín til að gera það. Ég neyði þau hins vegar ekki til þess og hóta þeim ekki með slysum eð örkumlun.

Í hvert skipti sem ég tek þátt í þessari umræðu þá kemur upp sá misskilningur að ég sé á móti hjálmum. Það er alls ekki svo. Þvert á móti þá er ég hlyntur hjálmum og hvet alla sem vilja nota hjálma að gera svo. En ég er alfarið á móti hjálmaskyldu. Af hverju kynni einhver að spyrja? Jú, vegna þess að rannsóknir sýna að hjálmaskylda hefur neikvæð áhrif hjólreiðar sem samgöngukost og er ekki til þess fallin að fjölga hjólreiðamönnum. Þar sem að hjálmaskylda hefur verið lögleidd hefur hjólreiðamönnum fækkað.

Árið 2007 birtist grein í tímaritinu Accident Analysis & Prevention undir fyrirsögninni: Drivers overtaking bicyclists: Objective data on the effects of riding position, helmet use, vehicle type and apparent gender eftir Ian Walker. Þar skýrir höfundurinn frá niðurstöðum rannsóknar á því hversu nálægt hjólreiðamönnum ökumenn keyra í umferðinni. Í niðurstöðunum kemur fram að Ökumenn aka nær hjólreiðamönnum en ella ef þeir eru með hjálm. Samkvæmt því þá er ég í raun í meiri hættu á að lenda í árekstri við bíl með hjálm á höfðinu heldur en ef ég skil hjálminn eftir heima.

Það hvort hjólreiðamenn hjóla með hjálm eða ekki á að vera val hvers og eins en ekki skylda. Ef við viljum virkilega auka öryggi hjólreiðamanna þá verður að fjölga þeim. Það hefur nefninlega sýnt sig að þar sem flestir hjóla þar eru fæst slysin á hjólreiðamönnum.

Myndin hér að ofan er frá Kaupmannahöfn en þar er sterk hefð fyrir hjólreiðum. Þegar ég tala við fólk um hjólreiðar berst talið oftar en ekki að Kaupmannahöfn og því hversu gott það sé að hjóla þar. Það sannast á öllum þeim fjölda sem hjóli borginni. Þar hafa Ráðamenn oft tekið umræðuna um hjálmaskyldu og alltaf komist að sömu niðurstöðu - að ekki sé rétt að skylda fólk til að hjóla með hjálma. Það hafi neikvæð áhrif og fækki hjólreiðamönnum. Ég vona að íslenskir ráðamenn komist að sömu niðurstöðu.

Konuna sem ég minntist á í upphafi hef ég þekkt lengi en ekki talað við í 20 ár eða svo. Hún gaf mér reyndar aldrei færi á að svara heldur skildi mig eftir orðlausan. Ég gladdist yfir því að við skyldum loksins rjúfa þagnarmúrin - það þurfti hjálma til! Ég var líka ánægður með að hún hefði svo sterkar skoðanir á hjálmum og vona að hún hjóli mikið ... með hjálm ef hún kýs svo.

Sunday, April 17, 2011

Góð hugmynd fyrir stjórnvöld

Nýlega gáfu stjórnvöld það út að þau ætluðu að veita 10 miljörðum í almenningssamgöngur á næstu 10 árum. Vel gert og ég hlakka til að sjá hvernig verður spilað úr því fé og í hvaða framkvæmdir verður ráðist.

Eftirfarandi myndband kynnir hugmynd sem vann til verðlauna hjá google í samkeppni um hvernig mætti gera heiminn að betri stað. Ég legg til að íslensk stjórvöld kynni sér Shweeb verkefnið og kanni möguleika þess hér á landi.

...eða hvað finnst ykkur?

Friday, April 15, 2011

15. mars. 2011

Uppruni myndar ókunnur. Vonandi verður engin óður.
Undanfarið hef ég hjólað allra minna leiða en bloggað minna. Ég hef jafnan sótt innblástur fyrir bloggið í ferðum mínum en að undanförnu hef ég ekki orðið var við neitt áhugavert. Að vísu mætti ég aftur kanínu í Öskjuhlíðinn, hvítri að þessu sinni, og svo hefur Tjaldur einn komið sér vel fyrir við enda flugvallarins í Vatnsmýrinni. Ástæður þessa andleysis er að finn í því að ég farin að hjóla með Ipod en slíkan grip hef ég ekki brúkað áður. Ég hef að vísu átt tækið í tæp tvö ár en hann hefur dvalið í kassanum frá því að Margrét færði mér hann í afmælisgjöf. En nú hef ég fundið not fyrir hann. Ég hef sett (með hjálp Odds Snæs) hljóðbækur inn á hann. Þessa stundina er ég að hlýða á sögu Péturs W. Kristjánssonar, "Pétur Poppari" eftir Kristján Hreinson í flutningi Gísla Rúnars Jónssonar. Sagan er einstaklega lifandi og skemmtilega skrifu af Kristjáni og Gísli hefur alltaf verið minn uppáhalds leikari. Pétur er einhver sú skemmtilegasta og viðkunnalegast persóna sem ég hef lesið um (eða í þessu tilfelli hlustað um) og ég kvíði því að að Gísli ljúku lestrinum. Satt best að segja á sagan hug minn allan á hjólinu þessa stundina og umhverfið svífur hjá án þess að ég verði var við neitt. "Algjört dúndur" eins og Pétur myndi segja.

Friday, April 8, 2011

Áhugaverðar ferðir um helgina

Um helgina fara fram kynningar á land- og jarðfræðideild HÍ með frekar óhefðbundnu sniði. Jarðfræðin ætlar að skella sér í strætó og segja frá á meðan landræðingar skella sér á bak hjóla og tala um borgina:

Fréttablaðið þann 8. mars 2011
Ritstjóri dashjól mun taka þátt í reiðinni og jafnvel gera sig gildandi undir lok ferðar. Það væri gaman ef margir myndu mæta og er hér með skorað á fróðleiksþyrsta að taka daginn frá.

Thursday, March 31, 2011

Danny MacAskill mættur að nýju

Ég er með soft spot fyrir þessum gæja.



...og hvað er þetta með girðingar, handrið og tröppur!!!

Gæinn sýnir borgina, að ég held Edinborg, í óvenjulegu og hversdagslegir hlutir í umhverfinu fá nýtt líf.

Wednesday, March 30, 2011

Sérhagsmunir íbúa við sjávarlóðir í Arnarnesi

Fréttablaðið 30. mars. 2011
Í Fréttablaðinu í dag er frétt undir fyrirsögninni: "Engir stígar neðan sjávarlóða". Fréttin segir frá áformum bæjarstjórnar Gbr. um að leiða hjá samþykkt aðalskipulag í þeim tilgangi að þóknast íbúum við sjávarlóðir í Arnarnesi og leggja ekki göngustíg hjá húsum þeirra.

Hér er væntanlega átt við "bláa-stíginn" sem liggja á um sjávarsíðuna á hbs. frá Straumsvík að Mógilsá. Stíg sem að öll sveitarfélögin á hbs. hafa sameinast um að leggja á komandi árum. Seltjarnarnes og Kóp. hafa nánast lokið sínum hluta og RVK er langt komin. Hfj. og Gbr. hafa þegar lagt kafla en mikið verk er óunnið. Álftanes hefur hins vegar ekkert gert í sínum málum og mér er ekki kunnugt um hvar Mosfellsbær stendur.

Sú ákvörðun að ráðast í gerð stígsins er djörf enda hefur verkið verið unnið á löngum tíma. Hins vegar hefur framkvæmdunum verið vel tekið og stígarnar mikið notaðir af útivistarfólki en ekki síst hjólreiðamönnum. Þrátt fyrir að stígurinn sé fremur hugsaður sem útivistarstígur þá er hann ein helsta samgönguæð þeirra sem hjóla. Á hverjum degi fara um stíginn mikill fjöldi samgönguhjólreiðamanna sem vilja síður hjóla í umferðinni.

Innihald greinarinnar dæmir sig sjálft. Fréttin vekur máls á augljósu viljaleysi bæjarstjórnar í Gbr. til að framkvæma eða a.m.k. ákveða að leggja stíginn fyrir Arnarnes. Höfundur vitnar í Auði Hallgrímsdótt sem segir að hún telji "málið mikilvægt fyrir alla bæjarbúa (Gbr.)" en ég vil meina að málið sé mun stærra en svo og varði alla íbúa hbs. Ég tel að það sé löngu tímabært að hbs. verði eitt skipulagsstig og hrepparígur og heimótt verði útilokuð þegar kemur að skipulagningu byggðar í borginni. Hagsmunir heildarinnar verða að ganga fyrir sérhagsmunum íbúa við sjávarlóðir í Arnarnesi.

Tuesday, March 29, 2011

Ekki er allt gull sem glóir

Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa staðið öðrum sveitarfélögum framar í því að byggja upp hjólaleiðir. Skref í þá átt var gerð Göngu- og hjólaleiðakorts sem sýnir helstu leiðir og tengingar. Þar eru stofnleiðir merktar sérstaklega og maður skildi ætla að þar væru aðstæður eins og best verður á kosið. Það eru þær vissulega víða en ekki allsstaðar. Við Klambratún og Hringbraut fara um fjöldi hjólreiðamanna á degi hverjum. Umferð er þar mikil og flestir halda sig á göngu- og hjólastíg til hliðar við umferðina. En þar er undirlagið með vesta móti - gamlar brotnar hellur sem afar óþægilegt er að hjóla á.

Kortið er ekki fullkomið og leiðakerfið ekki heldur. Ég hef heimildir fyrir því að kortið sé í reglulegri endurskoðun og uppfærslu. Kannski er tækifæri til að beita kortinu og benda á þá staði sem borgin hefur þegar valið sem leiðir fyrir hjólandi og leggja áherslu á hvaða úrbóta er þörf. Borgin er full af stöðum sem þessum þar ekki er allt sem sýnist.

Hellur henta illa sem undirlag fyrir hjólreiðamenn á mikilli ferð - hvað þá veðraðar og brotnar. Hversu lengi haldið þið að ökumenn myndu sætta sig við undirlag sem þetta.

Hellulögn við Klambratún og Hringbraut (HG2011)

Af kortaveitu RVK

29. mars 2011

Það er ýmislegt sem verður á vegi manns á hjólinu. Margt sem maður sér ekki þegar maður situr í bíl. Fyrir fáeinum árum hljóp hæna í veg fyrir mig í Hafnarfirði. Í dag var það kanína.

Kanína í Öskjuhlíðinni (HG2011)

Monday, March 28, 2011

28.mars 2011

Ég var ekki að flýta mér í morgun og fór fyrir nes og voga. Veðrið var frábært og vorið að brjótast fram. Ég varð ekki var við lóuna en hins vegar: gæsir, álftir og æðafugl. Í Sjálandinu hafði virðulegur eldri maður vaðið þangið upp að ökklum til að gefa fuglum brauð. Fuglarnir voru furðu spakir og hugsanlega var þetta ekki fyrsta stefnumótið sem þeir áttu við manninn. 

Fuglamaðurinn í Sjálandinu (HG2011)
Norðanmegin á Kársnesinu er göngubrú sem að mér þykir vel heppnuð. Brúin er einfalt mannvirki sem fellur vel að landslaginu og það er gott að hjóla yfir hana.

Göngubrú í Kársnesi (HG2011)

Félagarnir (HG2011)
Ég tók þá stóru ákvörðun að taka vetrardekkin undan hjólinu í vikunni. Vorið er komið og engin ástæða til að vera lengur negldum.