Tuesday, January 4, 2011

Grein: Ímynd hjólreiða og hjólreiðamanna í Sydney


Í  nýjasta hefti Transport Policy er birt grein undir heitinu: Perspectives and images of cycling as a barrier or facilitator of cycling, skrifuð af M. Daley og C. Rissel.

Í greininni segja höfundarnir frá eigindlegri rannsókn á hugmyndum og staðalmyndum um hjólreiðar í Sydney í Ástralíu. Tekin voru viðtöl við: hjólreiðamenn sem hjóla sér til dægrastyttingar sem og þá sem hjóla reglulega, en einnig þá sem ekki hjóla. Í niðurstöðunum kemur fram að ímynd hjólreiða og hjólreiðamanna hefur áhrif á aðra vegfarendur og getur einnig haft áhrif á þróun reiðhjóla sem samgöngutækis.
Hjólreiðar eru almennt álitnar heilsusamlegar og umhverfisvænar. Hins vegar eru hjólreiðamenn, sérstaklega þeir sem hjóla reglulega (samgönguhjólreiðamenn) gjarnan litnir hornauga í umferðinni. Þannig tilheyri hjólreiðarmenn jaðarsamfélagi og því þurfi að breyta  og hjólreiðar að verða „mainstream“. Jafnframt þurfi að eyða fordómum sem tengjast útbúnaði og lífstíl hjólreiðamanna eigi reiðhjól að ná fótfestu sem samgöngutæki:
To attract more people to cycling and in particular to cycle commuting, riding bikes needs to be viewed and promoted as a mainstream activity that can be undertaken by almost anyone, without the need for special clothing, espensive equipment or limited to purpose built facilities.
Nokkrir áhugaverðir punktar komu fram í greininni og sumir þeirra eru í samræmi við vísbendingar úr yfirstandi rannsókn. Þannig eru hjólreiðamenn í Sydney á svipaðri skoðun og hjólreiðamenn á höfuðborgarsvæðinu að hjólreiðar séu auðveld, hagkvæm og umhverfisvæn leið í samgöngum. Flestir þeirra lærðu að hjóla ungir, finnst það skemmtilegt og þeir telja sig vera í betri tengslum við umhverfið á hjóli heldur en í bíl. Þeim er umhugað um öryggi sitt og telja að efla þurfi innviði[1] fyrir hjólreiðamenn. Sumir ganga svo langt að halda því fram að hjólreiðamenn eigi alls ekki heima í umferðinni. Margir þeirra hafna þeirri staðalmynd að hjólreiðamenn séu íþróttamenn. Þeir kjósa að nota hjólið eingöngu sem samgöngutæki í daglegu lífi. Það koma einnig fram vísbendingar um að hjólreiðamenn fari sínar eigin leiðir og virði ekki alltaf umferðareglurnar. Í því sambandi er bent á að slík hegðun geti haft neikvæð áhfrif á ímynd hjólreiðamanna viðhorf annarra vegfarenda og þeirra sem ekki hjóla til hjólreiðamanna. Undirliggjandi er baráttan um (götu-) rýmið þar sem takast á ökumenn, hjólreiðamenn, gangandi vegfarendur og almenningur.
Það sem mesta athygli mína vakti voru umræður um jákvæða ímynd hjólreiða en neikvæða ímynd hjólreiðamanna. Einnig vakti það athygli mína að í áströlsku rannsókninni kemur fram að íbúar í Sydney virðast líta á hjólreiðar sem eðlilega dægrastyttingu en samgönguhjólreiðar sem jaðarhegðun. Þá hefur ímynd hjólreiðamanna sem græningja neikvæð áhrif á ímynd hjólreiða almennt: „... they are seen as a kind of lefty, greeny universty educated kind of people who are into the evironment stuff. They are not good Aussies who want to drive their Commodore (Regular rider, male)“. Þá þótti mér einnig athyglisverð umræða um umferðareglurnar og að þær séu fyrst og fremst sniðnar að akandi umferð en ekki hjólandi. Þannig sé það hjólreiðamönnum „eðlilegt“ að brjót umferðareglurnar til að auðvelda sér sínar ferðir.
Greinin er áhugaverð og nytsamleg á marga vegu. Hún kynnir til sögunnar umferðarumhverfið sem í fljótubragði virðist líkt því sem gerist á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi. Viðhorf sem koma fram minna einnig um margt á það sem kemur fram í mínum viðtölum við hjólreiðamenn. Aðferðafræðin er einnig nánast sú sama. Hins vegar er það svo að ýmsar hagnýtar tölfræðilegar upplýsingar um hjólreiðar og hjólreiðamenn virðast vera aðgengilegri í Ástralíu, en á Íslandi. Sú spurning vaknaði hvort nauðsynlegt gæti verið að afla tölfræðilegra upplýsinga um hugmyndir almennings um hjólreiðar. Könnunin þyrfti ekki að vera viðamikil og úrtakið smátt. Samt sem áður gætu komið fram vísbendingar sem stutt geta rannsóknina eða varpað nýju ljósi á ýmsa þætti hennar.
Greinina má finna hér til hliðar --->>>


[1] Innviðir: Hjólastígar, hjólareinar, hjólavísar og önnur aðstað sérstaklega ætluð hjólreiðamönnum.

No comments:

Post a Comment