Tuesday, April 19, 2011

Hjálmar


Mynd: cycle chic
Fyrir fáeinum dögum vatt sér upp að mér kona og sagði við mig í óspurðum fréttum: "þú átt að vera með hjálm" og bætti svo við "af hverju ertu ekki með hjálm?". Ég gerði mig líklegan til að svara, fyrir kurteisis sakir, þó ég reyni að forðast þessa umræðu. En hún gaf mér ekki færi á að svara og hélt yfir mér stutta tölu um ábyrgðarleysi frá manni sem væri að "agentera" fyrir hjólreiðum.

Mig langar að gera grein fyrir máli mínu eitt skipti fyrir öll.

Í fyrsta lagi þá er ekki skylda að nota hjálm á Íslandi og fullorðnu fólki er frjálst að hjóla með eða án hjálms. Og í öðru lagi þá hjóla ég stundum með hjálm og hvet börnin mín til að gera það. Ég neyði þau hins vegar ekki til þess og hóta þeim ekki með slysum eð örkumlun.

Í hvert skipti sem ég tek þátt í þessari umræðu þá kemur upp sá misskilningur að ég sé á móti hjálmum. Það er alls ekki svo. Þvert á móti þá er ég hlyntur hjálmum og hvet alla sem vilja nota hjálma að gera svo. En ég er alfarið á móti hjálmaskyldu. Af hverju kynni einhver að spyrja? Jú, vegna þess að rannsóknir sýna að hjálmaskylda hefur neikvæð áhrif hjólreiðar sem samgöngukost og er ekki til þess fallin að fjölga hjólreiðamönnum. Þar sem að hjálmaskylda hefur verið lögleidd hefur hjólreiðamönnum fækkað.

Árið 2007 birtist grein í tímaritinu Accident Analysis & Prevention undir fyrirsögninni: Drivers overtaking bicyclists: Objective data on the effects of riding position, helmet use, vehicle type and apparent gender eftir Ian Walker. Þar skýrir höfundurinn frá niðurstöðum rannsóknar á því hversu nálægt hjólreiðamönnum ökumenn keyra í umferðinni. Í niðurstöðunum kemur fram að Ökumenn aka nær hjólreiðamönnum en ella ef þeir eru með hjálm. Samkvæmt því þá er ég í raun í meiri hættu á að lenda í árekstri við bíl með hjálm á höfðinu heldur en ef ég skil hjálminn eftir heima.

Það hvort hjólreiðamenn hjóla með hjálm eða ekki á að vera val hvers og eins en ekki skylda. Ef við viljum virkilega auka öryggi hjólreiðamanna þá verður að fjölga þeim. Það hefur nefninlega sýnt sig að þar sem flestir hjóla þar eru fæst slysin á hjólreiðamönnum.

Myndin hér að ofan er frá Kaupmannahöfn en þar er sterk hefð fyrir hjólreiðum. Þegar ég tala við fólk um hjólreiðar berst talið oftar en ekki að Kaupmannahöfn og því hversu gott það sé að hjóla þar. Það sannast á öllum þeim fjölda sem hjóli borginni. Þar hafa Ráðamenn oft tekið umræðuna um hjálmaskyldu og alltaf komist að sömu niðurstöðu - að ekki sé rétt að skylda fólk til að hjóla með hjálma. Það hafi neikvæð áhrif og fækki hjólreiðamönnum. Ég vona að íslenskir ráðamenn komist að sömu niðurstöðu.

Konuna sem ég minntist á í upphafi hef ég þekkt lengi en ekki talað við í 20 ár eða svo. Hún gaf mér reyndar aldrei færi á að svara heldur skildi mig eftir orðlausan. Ég gladdist yfir því að við skyldum loksins rjúfa þagnarmúrin - það þurfti hjálma til! Ég var líka ánægður með að hún hefði svo sterkar skoðanir á hjálmum og vona að hún hjóli mikið ... með hjálm ef hún kýs svo.

1 comment:

  1. Heyr Heyr! Mín reynsla er reyndar sú að það fólk sem agíterar hvað mest fyrir hjálmaskyldu hjóli lítið sem ekkert.

    hraustur

    ReplyDelete