Sunday, April 22, 2012

Verst og best í miðbænum

Lundasjoppa á horni Skólavörðustíg og Berstaðastrætis (HG2012)
Miðbærinn í Reykjavík hefur óumdeilanlega sjarma þótt margt megi bæta til að gera hann að enn betri íverustað. Með fjölgun ferðamanna hefur bærinn tekið breytingum til hins betra og um leið fengið alþjóðlegri blæ. Kaupmenn og veitingamenn hafa fært þjónustu sína út á göturnar og um leið gert umhverfið meira aðlaðandi til að dvelja í. Fjölgun ferðamanna hefur þannig haft jákvæð áhrif á umhverfið í miðbænum með því að augða götulífið. Einn er þó galli á gjöf Njarðar. Þegar svo margir róa á sömu mið verður útkoman einsleit. Lundsjoppur hafa sprottið upp eins og gorkúlur um víðan völl. Ekki þarf lengur að ganga nema í mesta lagi 100 metra til að finna næstu minjagripaverslun. Gott og vel, en fyrir mitt leiti þá kastar þessi þróun rýrð á yfirbragð miðbæjarins og minnir um margt á minjagripaverslanirnar á Kúbu sem allar eru eins og allar selja sömu vörur.

Fótbolti í Austurstræti (HG2012)
Það besta sem gert hefur verið í miðbænum, að mínu mati, er lokun Austurstrætis. Ég settist í 15 mín. á íþróttabarinn Bjarna Fel í dag og sá dramatískar lokamínúturnar í jafntefli Man Utd og Everton "Toffies" á Old Trafford. Sannarlega skemmtun enda tvö mörk alveg undir lokin. Það sem vakti þó mesta athygli mína voru strákar að leika sér með bolta fyrir utan gluggann. Eitthvað sem hefði verið óhugsandi ef strætið væri opið fyrir bílaumfer. Að sjá þá og allt fólkið sem reikar stefnulaust um strætið en styttir sér stundir með leik sannfærði mig endanlega um ágæti lokunarinnar.

No comments:

Post a Comment