Friday, August 12, 2011

Aftur að troðmyllunni

Reglulegar ferðir úr BB í HÍ eru hafnar að nýju eftir sumarfrí. Þrátt fyrir að hafa hjólað í allt sumar var ég lítið eitt styrður eftir fyrstu skiptin. Fæturnir eru þó enn eins og nýir enda hafa þeir aldrei verið vandamál eins og sjá má á myndinni hér að neðan.
(HG2011)
Á leið minni um Kópavoginn hef ég undanfarið ítrekað rekist á mann og hund við undirgöngin við hinn sk. "skítalæk". Um er að ræða eldri, virðulegan mann og þann hraustlegasta rottweiler sem ég hef augum litið. Ég stóðst ekki mátið og tók mynd af þeim félögum með samþykki þess sem hafði orð fyrir þeim. Þrátt fyrir illúðlegt útlit og vafasamt orðspor á tímum þar sem að hundar sæta fordómum þá reyndist strákurinn (sem ég man reyndar ekki hvað heitir) kelinn og vinalegur. Ég efast ekki um að eigandinn sé það líka ef að á reynir.

(HG2011)
Sólin er blessunarlega farin að lækka en ég hef aldrei verið barn sumarsólstöðunnar. Kvöld- og náttmyrkrið er mér fremur að skapi og haustið er sá tími ársins þegar ég er í hvað mestri sátt við náttúruna. Ég býð haustið og um leið vetrarhjólreiðarnar hjartanlega velkomnar að nýju. Ég get ekki sagt að ég hafi saknað þess að hjóla í snjó og slyddu en árstíðarnar skyldi bjóða velkomnar og örlögum sínum um leið.

No comments:

Post a Comment